154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og hún skildi spurninguna rétt. Hún fer með ráðuneyti utanríkismála og við höfum á einhverjum tímapunkti kallað okkar dómsmálaráðuneyti innanríkisráðuneyti. Þegar við erum að tala um skipulagða glæpastarfsemi, þegar við erum að tala um ógnir, hvort sem þær stafa frá ríkjum, einstaklingum eða skipulögðum hópum, þá skiptir auðvitað máli að samtalið sé gott á milli utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis í þessu tiltekna samhengi. Ég nefni þetta vegna þess að það sló mig aðeins að heyra hér fyrr í dag að löggæslan er undanskilin aðhaldskröfu upp á 1% fyrir næsta ár en lengra nær það ekki. Mér finnst það ekki ganga alveg upp í hinu röklega samhengi málsins að við séum mikið að teikna upp myndina af því hverjar hinar breyttu aðstæður eru. Við tölum síðan um að við ætlum að undanskilja heilbrigðiskerfið okkar og velferðarkerfið frá aðhaldskröfunni og ég held að við séum öll sammála um að það eigi að gera. (Forseti hringir.) Ég er ekki sammála því að við sem tölum fyrir ábyrgum ríkisrekstri eigum með því sjálfkrafa að fallast á að ekki eigi að framkalla pólitískt samtal um það hvaða meðferð löggæslan í landinu er stundum að fá.