154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Forseti. Sérstaða okkar innan Atlantshafsbandalagsins er skýr og hún er viðurkennd. Það hefur ekki breyst hvað varðar 2% viðmiðið. En hins vegar hljótum við öll að sjá, og við þar með talin, að öll lönd þurfa að gera meira miðað við það sem við sjáum raungerast í kringum okkur. Við eigum sjálf að gera þá kröfu á okkur að sýna það í verki að vera verðugir bandamenn og finna leiðir til að koma með framlag inn í samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins. Það gerum við með ýmsum hætti í dag en við getum sannarlega gert betur og það snýst ekki um að stofna her.

Varðandi utanríkisviðskiptin erum við nýkomin með gríðarlega mikilvægan fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Indland sem í felast mikil tækifæri sem við munum þurfa að leggja áherslu á að grípa, finna og ná, bæði með atvinnulífinu og í störfum okkar í utanríkisþjónustunni. Tvísköttunarsamningar geta einnig gert gagn og að vera með skýrar reglur um beina erlenda fjárfestingu sem við þurfum að auka á sama tíma og við þurfum að tryggja ákveðna skoðun á fjárfestingu þegar kemur að grundvallarinnviðum. Í umræðum um varnartengdu verkefnin og aukningu þar þá er það ekki eingöngu Landhelgisgæslan sem er undir heldur erum við sömuleiðis með 400 millj. kr. hækkun framlaga til varnartengdra verkefna árið 2025 og það er í samræmi við áform um styrkingu varnartengdra verkefna. Þetta snýst um verkefni á Keflavíkursvæðinu o.s.frv. sem skiptir okkur máli og út tímabilið er frekari hækkun. Þetta er til viðbótar við þær 700 milljónir sem eru í Landhelgisgæsluna. Síðan, þegar kemur að útgjöldum til varnarmála, erum við líka með í stuðningi við Úkraínu. Skilgreindur hluti af þeim stuðningi er hugsaður í varnartengdan stuðning, enda er það að sá stuðningur sem þau leggja helst áherslu á. En við erum með sveigjanleika í þeirri áætlun þannig að hægt sé að færa á milli eftir því hvernig málum vindur fram þar.