154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Í öryggis- og varnarmálum skiptir líka máli að við séum með gott og þétt samstarf á fleiri stöðum en í Atlantshafsbandalaginu. Það á við um ákveðið svæðissamstarf þar sem skiptir mjög miklu máli fyrir okkur að vera virkir þátttakendur. Þar getum við bæði verið með framlag en líka bætt okkar eigin þekkingu og burði.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um alþjóðasamstarf og hversu mikilvægt það er fullvalda og sjálfstæðu smáríki eins og okkur, og hversu mikið við getum lært í því. Við þurfum hins vegar að halda fókus í utanríkisstarfi okkar eða þjónustu. Vegna þess hversu fá við erum getum við ekki verið alls staðar. En við erum með í starfi Veðurfræðistofnunar í þróunarsamvinnu, bæði í veðurathugunum og þjálfun í lágtekjuríkjum. Við erum sannarlega með í hluta alls þessa starfs en við erum ekki beinir þátttakendur í öllu. (Forseti hringir.) Þegar kemur að málefnum hafsins erum við sömuleiðis sterk. Það skiptir máli að halda fókus en auðvitað líka að njóta góðs af því sem við getum unnið.