154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[20:22]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun. Við erum búin að fara yfir hana með ráðherrum viðkomandi fagsviða, fagráðherrum, bæði í dag og síðastliðinn föstudag. Þessi fjármálaáætlun er fyrir árið 2025–2029. Það er mikilvægt að hafa í huga að kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar, sem nú er nýtekin við, nær einungis fram í september, í mesta lagi fram í september 2025. Þessi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar nær eingöngu til næsta fjárlagaárs. Það er búið að samþykkja fjárlög þessa árs og það má kannski lesa einhvers konar vísbendingar í þessu fyrir fjárlög næsta árs. En við skulum vona að ný ríkisstjórn verði komin til valda eftir kosningar, sem verða í síðasta lagi næsta haust.

Í kynningu á fjármálaáætluninni var efnahagsástandið litað ansi rósrauðum lit, bjart fram undan, gott ástand, mikill hagvöxtur. En það gleymdist alveg að tala um einn hlut. Það var það að verðbólgan í dag, samkvæmt síðustu mælingu 1. mars, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka, var 6,8% á ársgrundvelli, 1. febrúar var hún 6,6%. Hún fer hækkandi, hún hækkaði um 0,2%, og það sem meira er er að stýrivextir í landinu eru 9,25%, einna hæstu stýrivextir í Evrópu. Þeir eru hæstir í allri Vestur-Evrópu á Íslandi, 9,25%. Þeir eru hærri í Rússlandi, veit ég, en ég veit ekki um neitt annað land sem er með jafnháa stýrivexti og Ísland. Í Noregi eru þeir 4,25% eða 4,50%, sem er nágrannaland okkar, sem við eigum margt sameiginlegt með. En kjarnamálefnið, ef við horfum á efnahagsástandið, er verðbólgan og stýrivextir. Mér er ekki ljóst hvernig mikill hagvöxtur á að eiga sér stað þegar við búum við 9,25% vexti, hvernig fyrirtæki eiga að geta fjármagnað sig á lánamarkaði og staðið í uppbyggingu með 9,25% vexti, eða hærri vexti, yfir 10% vexti. Ég tala nú ekki um þá kjaraskerðingu sem húsnæðiseigendur verða fyrir, að borga hina gríðarlegu háu vexti. Það er stóra málið í dag, það er að ná niður verðbólgunni og lækka stýrivexti. Seðlabankinn treysti sér ekki til að lækka stýrivexti á síðasta vaxtaákvörðunardegi, hélt þeim áfram 9,25%. Og það verður fróðlegt að sjá hvað gerist 8. maí næstkomandi. Það er ekkert í kortunum sem bendir endilega til þess að vextir verði lækkaðir þá en við skulum vona að vaxtalækkunarferlið verði hafið. Það hafa gerst atvik, eins og t.d. í Grindavík, ríkið þurfti að kaupa upp húsnæði þar, sem er þensluhvetjandi. Og svo eru það líka kjarasamningar, tilfærslukerfin og annað slíkt, sem er kannski ekki beint til að minnka verðbólgu. Það er ekki aðhald þar á ferðinni.

Það sem má lesa úr þessu, og kom fram í máli ráðherra við kynningu, og hefur komið hér fram í umræðu, er það að ríkisstjórnin lítur svo á að hún ætli að styðja við peningamálastefnu Seðlabankans. Það tel ég ekki vera nægjanlegt. Ég tel að beita eigi ríkisfjármálunum af enn meiri krafti, og önnur ríki hafa gert það, til að ná verðbólgunni niður. Það er gríðarlega mikilvægt. Spánn gerði það og fleiri geta gert það. Við getum notað ríkisfjármálin, „fiscal policy“, til að keyra niður verðbólguna og áhrifin eru ekki með þeim tímafresti sem peningamálastefnan hefur og stýrivextirnir. Það er hægt að gera það með skjótum hætti. Það er ekki verið að gera og það er stóra málið. Hvernig getur ríkisstjórnin gert það? Jú, það er með auknu aðhaldi, dregið úr framkvæmdum, dregið úr útgjöldum, þannig tekið peninga úr umferð, eða með skattahækkunum. Það eru engar skattahækkanir sem eru til þess að taka peninga úr umferð, til að minnka peningamagn í umferð, til að draga úr verðbólgunni. Það er alveg kristaltært að við getum horft á stýrivaxtahækkunina, sérstaklega á húsnæðislántakendur, sem skatt. Þeir eru einfaldlega að borga meira af húsnæðislánum sínum en þeir gerðu ella og það munar hundruðum þúsunda króna og það má í raun líta á það sem skatt. Fyrir þann sem er með húsnæðislán skiptir ekki máli hvort hann er að borga af láni sínu eða borga skatt eða hvernig það er gert. Það er kjararýrnun í gangi hjá öllum húsnæðislántakendum, öllum þeim sem hafa orðið fyrir hækkuninni. Það er stóra málið.

Stóra málið er: Náum niður verðbólgunni. Mér sýnist mörg teikn á lofti en ég óttast að við séum að festast í verðbólgu. Það er möguleiki að festast í ákveðinni verðbólgu á bilinu 6–7%. Og hver er drifkrafturinn í verðbólgunni? Jú, vissulega ytri áföll og innri líka sem við höfum orðið fyrir. En það er líka viðvarandi húsnæðisskortur og framboðsskortur. Alveg síðan ég settist á þing, í lok nóvember eða byrjun desember 2021, hefur verið umræða um framboðsskort á húsnæði. Og ríkisstjórnin er ekki að gera nægilega mikið til þess að auka framboð á húsnæði. Það er gríðarleg fólksfjölgun í landinu, það hefur fjölgað um 1.000 manns á mánuði, fólk sem kom til starfa hér í ferðamannaþjónustu og fleiri atvinnugreinum; það voru upplýsingar samkvæmt fjáraukalögum. Þetta fólk þarf allt húsnæði. Ríkið þarf að fara í aðgerðir til að auka húsnæðisframboð, það er stóra málið. Það eru til dæmi um það að ríkið hafi stigið öflugt fram í byggingu húsnæðis. Ég get tekið dæmi frá 1964 þegar júnísamkomulag verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda var gert og uppbygging Breiðholtsins var hafin. Það var mikill húsnæðisskortur í Reykjavík en úr varð að stjórnvöld, verkalýðshreyfing og atvinnurekendur tóku höndum saman og ríkisstjórnin sendi frá sér yfirlýsingu um að ráðist yrði í stórfelldar umbætur í húsnæðismálum og byggðar yrðu 1.250 íbúðir. Íbúar í Breiðholti urðu alls um 7.600 í kjölfarið. Við þurfum að fara í stórtækar aðgerðir svipað og við gerðum þá, fyrir 60 árum. Það er það sem við verðum að gera. Það verður að fara að stika út stór hverfi í Reykjavík til að taka á þessu vandamáli. Þetta er ekki hægt. Við útrýmdum braggahverfunum þá og núna verðum við að taka á þessum gríðarlega framboðsskorti. Það á ekki að vera stöðug hækkun á húsnæði sem kemur niður á húsnæðisverði.

Annað sem vekur athygli í fjármálaáætluninni er aðhaldið. Hvar kemur aðhaldið niður? Jú, það á að spara um 10 milljarða með því að fresta útgjöldum til öryrkja (Gripið fram í: Rangt.) til 1. september. Það er það sem á að gera og það er ekki gott. Við erum vissulega á móti því nýja lagafrumvarpi sem búið er að leggja fram hér en við teljum að þessir 10 milljarðar eigi að fara til öryrkja. Það er alveg klárt mál að þegar við horfum á þetta þá verður að fara að taka á tekjuskerðingunum hjá öryrkjum og öldruðum. Við getum tekið dæmi um þessar endanlegu tekjuskerðingar og tekjutengingar þegar kemur að örorkubótum og til aldraðra. Í kjarasamningunum mun ríkið setja peninga í skólamáltíðir. Þar er engin tekjutenging. Þar er ekkert verið að sjá til þess að þeir sem hafa breiðu bökin taki þátt í greiðslu á skólamáltíðum. Öryrkjar í dag þurfa að lifa við þetta aftur og aftur í hverjum einasta mánuði; til að sjá sér farborða þá lenda þeir í skerðingum. Það er dæmi frá Grindavík, kona sem selur húsið sitt þar. Hún lendir í tekjuskerðingu af því að hún fær tekjur af sölu húsnæðis síns þar.

Annað sem er áhugavert varðandi hug ríkisstjórnarinnar til öryrkja er Múlalundur. Nú ætlar ríkið að hætta að styrkja Múlalund. Þar er vísað til, og ég sá það í fréttum, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, um rétt fatlaðs einstaklings til að vinna á vinnustað án aðgreiningar. Aðgreining á ekki að vera brot á þessum samningi. Réttur til vinnu án aðgreiningar felur ekki í sér bann við því að vinna á vernduðum vinnustað með aðgreiningu, það gerir það ekki. Þetta er stórkostlegur misskilningur á þessum mikilvæga samningi. Og ég vona að hæstv. fjármálaráðherra sjái til þess að þessi mikilvæga stofnun í samfélaginu, Múlalundur, sem ríkið hefur varið árum saman, t.d. gagnvart Brussel, varðandi samkeppni og annað slíkt — að það sjái til þess að öryrkjar fái að halda áfram að vinna á Múlalundi.

Annað sem snertir trúverðugleika þessarar fjármálaáætlunar er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti skýrslu í síðustu viku þar sem lagt var mat á þróun ríkisfjármála í 80 mismunandi ríkjum. Í skýrslunni er spáð talsvert meiri hallarekstri á ríkissjóði Íslands en gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun sem nýr fjármálaráðherra hefur lagt fram. Í skýrslunni er spáð halla sem nemur 2,1% af vergri landsframleiðslu. Gróflega reiknað er það um 95 milljarða halli. (Forseti hringir.) Það er ekki 49 milljarða halli sem ríkið gerir ráð fyrir. Það munar 46 milljörðum. (Forseti hringir.) Trúverðugleiki þessarar áætlunar er einfaldlega ekki nægilegur og það er alveg klárt mál að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur mikið til síns máls þegar hann segir (Forseti hringir.) að hinn fyrirliggjandi halli sé allt of lágur þegar ríkið áætlar hann. Hann er mjög líklega miklu hærri og munar þar tugum milljarða.

(Forseti (OH): Forseti minnir hv. þingmenn á að það er búið að semja um ræðutíma og biður hv. þingmenn að virða þann samning.)