154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:22]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að heyra að hv. þingmaður játar því að það eru lögð á há gjöld á fiskeldisfyrirtækin á Íslandi. Hæstu gjöld á nokkra atvinnugrein á Íslandi eru gjöldin sem eru lögð á þessa atvinnugrein. Hún er ung og hún er enn í vexti en það er samt búið að leggja einhver hæstu gjöld á þessa atvinnugrein umfram allar aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Þegar ég var að spyrja hér um gjaldtökuna í Noregi, ef við ætlum að fara í alvörunni í samanburð við rekstrarskilyrði fiskeldis á Íslandi og gjaldtöku og bera saman við önnur lönd, þá fer ég fram á það að það verði gætt að þessu heildarsamhengi. Já, það eru mjög há gjöld í Noregi og það er reyndar svo, ef skýrsla Boston Consulting Group er lesin, að Ísland er að ná þeim gjaldtökumörkum sem eru bæði í Noregi og Færeyjum. Þá er eðlilegt að skoða hvað er lagt til grundvallar í norska regluverkinu og þess vegna er ég að benda á það að eitt af því eru ótímabundin leyfi. Þau veita mikinn fyrirsjáanleika fyrir fyrirtækin til að ráðast í fjárfestingar, leggja drög að rannsóknum og þróunarstarfi og horfa til lengri tíma til að byggja undir þessa mikilvægu grein. Ég held, herra forseti, að í allri umræðunni eða uppnáminu sem hefur verið hér um þetta mikla og stóra frumvarp, þetta atriði er snýr að því að það séu ótímabundin rekstrarleyfi, þá þurfi menn aðeins að átta sig á því hvað er verið að ræða um. Þetta eru ótímabundin rekstrarleyfi. Það er ekki neitt annað en það, það er ekki verið að færa neinar auðlindir í hendur þessara fyrirtækja. Þetta eru ótímabundin rekstrarleyfi sem eru háð skilyrði laganna. Lögin geta breyst. Og ef skilyrði laganna eru ekki uppfyllt þá reyndar, eins og hæstv. matvælaráðherra hefur komið hérna inn á, (Forseti hringir.) er verið að auka til muna heimildir stjórnvalda (Forseti hringir.) til að taka leyfin af þessum fyrirtækjum. Það er atriði sem vert er að ræða.

(Forseti (ÁsF): Ég minni hv. ræðumann á ræðutímann.)