154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég efast auðvitað ekki eitt augnablik um að það er ýmislegt í þessu frumvarpi sem er gott og horfir til framfara. Það er bara þetta grundvallarmál sem ég er að tala um. Og ég er ekkert að saka þennan einstaka hæstv. ráðherra eða stjórnarliða um skort á auðmýkt. Ég er að tala um ríkisstjórn sem ætlar að byggja á umboði sem hún fékk fyrir þremur árum síðan og virðist vera fokið langt út í hafsauga. Við þær aðstæður þá setja menn ekki svona grundvallarmál á dagskrá rétt fyrir þinglok og ætlast til að það sé samþykkt. Það er algjör dómgreindarskortur og það er skortur á auðmýkt.

Hér er talað um að það sé hægt að afturkalla leyfið. Það þarf að vera hægt að gera það og ég tek undir það en ég neita að beygja mig fyrir þeim rökum að það sé ekki hægt að gera það með tímabundnar heimildir líka. Það getur vel verið að það þurfi að leggjast aðeins betur yfir það en það er alveg örugglega hægt. Ég enda bara þessa samræðu á því að segja að hér er stærra mál til umræðu og stærra prinsippatriði til umræðu en við höfum séð í mjög langan tíma í íslenskum stjórnmálum. Það verður bara mjög gaman að fylgjast með því hvernig þjóðin bregst við þegar hún áttar sig á því.