154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[17:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég undirstrika það að við þurfum skýran ramma um þessa vaxandi atvinnugrein sem fiskeldið er og að gera skýra kröfu til hennar. Svo skulum við læra af sögunni og saga mín hér á þingi er, mínus þrjú ár, síðan 1999. Það hefur aldrei tekist að breyta þessu. Það hefur aldrei tekist og hafa verið ýmis tilbrigði við stef þegar kemur að samsetningu ríkisstjórna. Hvorki vinstri stjórnir eða hægri stjórnir. Það hefur kannski verið mismikill áhugi en það hefur samt verið þannig að það hefur ekki tekist. Ég hef bent hér á í dag að formaður Framsóknarflokksins og núverandi fjármálaráðherra var þó með ákveðna viðleitni til þess að tímabinda heimildir í fiskveiðistjórnarkerfinu á sínum tíma. Ég veit að hann lagði þetta fram tvisvar og það var stoppað í bæði skiptin af þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Er það tilviljun? Nei. Þess vegna vara ég eindregið við því, þó að það geti fylgt góður hugur máli hjá ráðherra, að þetta verði fest með þessum hætti í lög eins og er verið að setja fram núna af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við höfum reynslu af því að hafa gefið auðlindina í sjónum og við eigum ekki að gera þetta aftur. Við þurfum að leiðrétta kúrsinn og það þarf ekki að gerast með því að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu, síður en svo. Það þarf bara að gera skýrar kröfur og að þetta séu tímabundnar heimildir. Það er það sama með fiskeldið. Það þarf tímabundnar heimildir. Ég held að það væri farsælt fyrir ríkisstjórnina að átta sig á þessu risamáli sem þau eru búin að setja í hendurnar á þinginu og ég vona svo heitt og innilega að þingið, vegna þess að ég sé hér nokkra Framsóknarmenn, reyndar allra flokka, hér í hliðarsölum og í salnum — að fólk vakni til vitundar um þetta mikla réttlætismál sem við höfum núna í höndunum, þ.e. að við þurfum að rétta af kúrsinn hjá ríkisstjórninni og ég vona að við sameinumst um það. Þetta má ekki verða svona. Það bara má ekki gerast.