154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[17:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einmitt það ákvæði sem ég lýsti því yfir á sínum tíma að við í Viðreisn vorum tilbúin til að styðja og allar breytingarnar á stjórnarskránni í þessum fjórum köflum, þ.e. á forsetakaflanum, enda veitir ekki af núna, átti m.a. að taka til meðmælenda fyrir fólk í framboði til forseta, og það var talað um umhverfisákvæði, það var talað um íslenskuákvæði. Allt ákvæði sem við gátum sætt okkur við og við hefðum sætt okkur við það ákvæði sem var til umræðu á sínum tíma ef við hefðum fengið eina orðalagsbreytingu; að setja inn „tímabundið“. Á það gátu ríkisstjórnarflokkarnir ekki fallist. Það segir auðvitað ákveðna sögu. Svo sjáum við líka að allt frá því að þessi mál voru tekin fyrir í auðlindanefndinni árið 2000, og allar breytingar sem hafa átt sér stað, að við þessu hefur aldrei mátt hrófla. Þá koma sjálfvirku hemlarnir, bremsurnar. Það er rifið í handbremsuna og má ekkert gera þrátt fyrir að það sé í þágu almennings.