154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[17:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla eiginlega bara að taka því vel þegar hv. þm. Teiti Birni Einarssyni misbýður þegar maður er að krefjast þess að almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Mér finnst það svo sem ekki verra. Það sem mér finnst hins vegar verra — af því að við erum sammála um að það eigi að byggja upp fiskeldi. Við erum sammála um að það þurfi að halda betur utan um þessa atvinnugrein og ég vona að hæstv. hv. þingmaður sé sammála mér um að það eigi að gera meiri kröfur til fiskeldisfyrirtækja þegar kemur að verndun náttúru, dýra og umhverfis. Ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um það. En mér finnst vont að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ýtir undir tortryggni almennings og þjóðarinnar gagnvart þessari vaxandi atvinnugrein af því að það er verið að fara þessa leið og sagan er ólygin. Ég spyr á móti: Af hverju má ekki halda sig við tímabindingu leyfa? Við í Viðreisn höfum talað um í fiskveiðistjórnarkerfinu um 20 ár, 25 ár, til þess einmitt að draga fram fyrirsjáanleikann. Ég er alveg algjörlega sammála hv. þingmanni. Fyrirtækin þurfa fyrirsjáanleika, samfélögin og sveitarfélögin, hvort sem er á landsbyggðinni eða hér á Stór–Hafnarfjarðarsvæðinu, þau þurfa fyrirsjáanleika. Þess vegna tel ég, í ljósi greinarinnar, í ljósi réttlætiskenndar almennings, að það sé lykilatriði að við einbeitum okkur að tímabindingu leyfa. Ekki til eins eða tveggja ára, ég er ekki að tala um það. Það er strámaður. Við tölum um tímabindingu af því að tímabinding er lykilatriði til að segja: Auðlindin er í eigu þjóðarinnar. Það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn á erfitt með að viðurkenna og draga fram. Af hverju hefur hann alltaf stoppað öll frumvörp, allar tilraunir til þess að koma einhverju skikki á málin í þágu almennings?