154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[17:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða í dag er alveg ótrúlega mikilvæg fyrir ekki síst málið sjálft en líka lýðræðið, það sem við þurfum að standa undir og gæta að, stjórn en ekki síður stjórnarandstaða. Það verður hreint út sagt að segja að reynsla síðustu tveggja til þriggja vikna af því hvernig ríkisstjórnin umgengst þingið eða meiri hlutinn umgengst þingið og breytir málum, stórum málum, prinsippmálum, hvort sem við erum að tala um samkeppni og samkeppnislög og kippa þeim úr sambandi, yfir í svona risa prinsippmál sem snerta nýtingu auðlindar og að byggja upp atvinnugrein með skynsamlegum, réttlátum og ábyrgum hætti, þessi reynsla okkar núna síðustu vikur eða síðustu daga þessarar ríkisstjórnar þýðir að við þurfum að vera á varðbergi. Ég bið þau sem eru í atvinnuveganefnd að fylgjast mjög vel með öllu því sem ríkisstjórnin gerir þannig að það verði um raunverulegt eftirlit að ræða því að hún er bitur og beisk reynslan eftir breytingu á búvörulögum (Forseti hringir.) sem var fyrst og síðast á kostnað bænda, neytenda og almennings og fyrst og síðast fyrir sérhagsmunagæsluöflin innan þeirrar greinar. Það er hætta á að það verði líka núna (Forseti hringir.) og það er vont af því að við viljum, eins og ég segi, í Viðreisn taka utan um þessa atvinnugrein.