154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[17:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í fyrsta lagi vil ég nefna eftirköstin af því þegar við vorum síðast að fara með laxeldisfrumvarpið í gegnum þingið 2018 á harðaspretti og öll loforðin sem við fengum um hvernig ætti að sinna eftirliti til þess að koma í veg fyrir umhverfisslys og alls konar svoleiðis sem reynsla undanfarinna ára sýnir okkur að hefur ekki virkað neitt rosalega vel. Samt hefur stjórnarandstaðan ítrekað lagt fram tillögur um eflingu á eftirliti með fiskeldinu en ekkert gengið þannig að maður kaupir ekki alveg endilega að sú verði raunin þegar allt kemur til alls. Peningarnir þarna eru svo miklir að öll slys eru einhvern veginn bara fyrirgefin. Við getum nú ekki farið að setja einhverjar kröfur eða refsingar fyrir umhverfisslys því að þá fer allur peningurinn. Maður veltir fyrir sér hvar mörkin liggja hjá fólki þegar allt kemur til alls. Þetta er vissulega mikilvægur atvinnuvegur á þeim svæðum þar sem fiskeldið er en við vitum líka hvaða áhrif völdin sem peningunum þar fylgja hafa inn í sveitarstjórnir; hafa áhrif á skipulagsákvarðanir, hafa áhrif á það hvernig stjórnvöld taka á eftirliti og bregðast við slysum eða vanrækslu. Það hefur ekki verið góð reynsla af því þannig að, þrátt fyrir öll lög og reglur, hvernig getum við náð að yfirstíga þetta vandamál?