154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[19:06]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Fiskeldi er atvinnugrein sem veltir tugum milljarða, hefur skapað hátt í þúsund störf á Íslandi og umtalsverðar skatttekjur og verið mikil lyftistöng t.d. fyrir Vestfirði og Austfirði, og þarna eru gríðarleg verðmæti að verða til, bæði í sjókvíaeldinu og í landeldinu. Ég er sannfærður um að fiskeldi skipti máli og muni skipta máli á næstu árum og áratugum þegar kemur að því að brauðfæða heiminn, mæta aukinni eftirspurn eftir fiskprótíni um allan heim. Ísland á að taka þátt í því verkefni. Það eru áskoranir sem fylgja því. Það hafa komið upp stórkostleg vandamál sem þarf að leysa og gallar sem þarf að girða fyrir. En þetta er engu að síður verkefni sem blasir við okkur í mínum huga.

Það verður hins vegar engin sátt um sjókvíaeldi hér í íslenskum fjörðum nema hert verði mjög verulega á eftirliti og þeim kröfum sem eru gerðar til fyrirtækjanna. Reyndar heyrir maður það sérstaklega, t.d. fyrir vestan, að þar eru það einmitt íbúar og m.a. fólks sem sjálft starfar í fiskeldinu og í sjókvíaeldinu að kalla eftir því að að búinn sé til sterkari lagarammi um þessi mál, það sé sterkara eftirlit og kvaðir sem myndi skapa kannski einhverja lágmarkssátt og samstöðu um áframhaldandi vöxt og viðgang greinarinnar. Ég held að allir hljóti að sjá að við getum ekki horft upp á það hérna á nokkurra ára fresti að það verði stórkostleg umhverfisspjöll þar sem laxar sleppa í þúsundatali með hörmulegum afleiðingum fyrir lífríki og fyrir villta laxastofna á Íslandi, fyrir vistkerfið allt.

Ég hef sagt það áður hér í þessum sal, og ég ætla bara að segja það aftur að hvatarnir í kerfinu og viðurlögin þurfa að vera með þeim hætti að það borgi sig aldrei að standa í þessum atvinnurekstri nema vistkerfisáhrifin séu lágmörkuð með bestu mögulegu tækni og aðferðum. Og svo þurfum við auðvitað að skattleggja þessa grein með sanngjörnum hætti og tryggja nærsamfélaginu hlutdeild í þeim tekjum. Atvinnuuppbyggingin verður að vera á forsendum íbúanna sjálfra. Ef við tökum bara málefni Seyðisfjarðar sem dæmi þá gengur auðvitað ekki að vaðið sé áfram með áform um sjókvíaeldi þvert á vilja fólksins sem býr á viðkomandi stað.

Ég held að það sé að verða svona nokkuð útbreidd og nokkuð almenn skoðun að stjórnsýslan í þessum málum og eftirlitið hefur verið í algeru skötulíki og ekki haldið í við vaxandi umsvif greinarinnar á undanförnum árum. Þetta var staðfest mjög kirfilega í ágætri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út í fyrra sem lýsir ákveðnu stjórnleysi og stefnuleysi eða stefnureki í þessum málaflokki. Þar kemur m.a. fram að breytingum á lögum hafi ekki verið fylgt eftir með því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit þeirra stofnana sem mæðir mest á, að breytingarnar sem voru gerðar árið 2014 og 2019 hafi aðeins að takmörkuðu leyti náð markmiðum sínum. Það hafi hvorki skapast aukin sátt um greinina né hafi eldissvæði eða heimildir til að nýta þann lífmassa sem talið er óhætt að ala á tilteknum hafsvæðum verið úthlutað með útboði af hálfu matvælaráðherra. Þetta segir Ríkisendurskoðun. Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarksávinningi fyrir ríkissjóð. Þetta hefur fest sig í sessi án nægilegrar umræðu og án eðlilegs atbeina stjórnvalda. Verðmætum hefur hér verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds. Þetta bendir Ríkisendurskoðun á. Verðmætum í formi eldissvæða og lífmassa úthlutað til lengri tíma án endurgjalds. Þetta er arfleifð núverandi ríkisstjórnar og þeirra flokka sem hana skipa í málefnum sjókvíaeldis.

Hvað gerðist svo þegar ráðist var í breytingu á fiskeldislöggjöfinni árið 2019? Jú, þá var birtingu og þar með gildistöku laganna slegið á frest í ráðuneytinu og það var gert gagngert til þess að hlífa ákveðnum fyrirtækjum sem höfðu sótt um rekstrarleyfi við þeim málsmeðferðarreglum sem kveðið er á um í þessum nýju lögum og þannig gátu þau unnið frummatsskýrslu og fengið hana til meðferðar á grundvelli eldri laganna. Þetta gerðist á ábyrgð og á vakt Kristjáns Þórs Júlíussonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. Um þetta er fjallað í skýrslu Ríkisendurskoðunar. En með lögunum sjálfum árið 2019 voru stigin nokkur mjög mikilvæg skref og um þau náðist reyndar þokkaleg sátt hérna á Alþingi. Eftir 1. umræðu og umfjöllun í atvinnuveganefnd kom fram nefndarálit sem jafnvel fulltrúar í stjórnarandstöðu gátu sætt sig við. Þingmenn frá Samfylkingu og Viðreisn rituðu undir þetta nefndarálit. Þar er að finna sérstakan kafla undir yfirskriftinni: Gildistími rekstrarleyfa, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nefndinni var bent á að misræmis gætti í að bæði væru gefin út ótímabundin rekstrarleyfi og leyfi tímabundin til sextán ára. Komu jafnframt fram þau sjónarmið að ótímabundnum rekstrarleyfum mætti jafna til óbeins eignarréttar yfir sameiginlegri auðlind. Meiri hlutinn telur rétt að tryggt sé að allir rekstrarleyfishafar sitji við sama borð og að slík leyfi sæti endurskoðun líkt og önnur rekstrarleyfi. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu á 11. gr. frumvarpsins að rekstrarleyfi verði tímabundin og skuli endurskoðuð a.m.k. á sextán ára fresti og að rekstrarleyfishafa verði skylt að leggja fram þau gögn sem nauðsynleg séu til endurskoðunar leyfisins, sé þess óskað.“

Þetta kom sem sagt fram í nefndaráliti sem stjórnarflokkarnir þrír og tveir stjórnarandstöðuflokkar kvittuðu upp á fyrir örfáum árum. En með því frumvarpi sem hér er lagt fram er lagt til að horfið verði frá þessu. 33. gr. frumvarpsins orðast svo, með leyfi forseta:

„Ótímabundin rekstrarleyfi. Uppfylli rekstrarleyfishafi öll skilyrði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim skal rekstrarleyfi til sjókvíaeldis vera ótímabundið.“

Í ákvæði VI til bráðabirgða segir, með leyfi forseta:

„Öll rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, sem eru í gildi við gildistöku laga þessara skulu breytast í ótímabundin leyfi við gildistöku laganna.“

Hér er verið að fara þvert gegn þeim sjónarmiðum sem komu fram af hálfu hv. atvinnuveganefndar árið 2019. Stjórnarliðar nota hérna þá afsökun að ákveðin réttaróvissa hafi verið til staðar um þennan 16 ára gildistíma en það að það sé einhver réttaróvissa til staðar, að lögin séu ekki nógu skýr í dag, réttlætir auðvitað ekki að farið sé í það að afhenda fiskeldisfyrirtækjum varanlegan aðgang að fjörðunum okkar með ótímabundnum rekstrarleyfum. Það er gersamlega fráleit lausn á því viðfangsefni sem hér er verið að tala um. Ég átti satt best að segja erfitt með að trúa þessu þegar ég las frumvarpið og greinargerð þess. Ég veit að þessi ríkisstjórn svífst einskis en fyrr má nú rota en dauðrota, steinrota. Þau ætla sem sagt í alvörunni að gera tilraun til þess hér á Alþingi að veita fiskeldisfyrirtækjum einhvers konar eilífðarleyfi til þess að fénýta firði Íslands, sameiginlegar náttúruauðlindir íslensku þjóðarinnar. Nú á að gefa út leyfi sem verður engin leið að afturkalla án þess að baka ríkinu skaðabótaskyldu nema að mjög þröngum skilyrðum uppfylltum. Þau ætla að breyta öllum rekstrarleyfum sem þegar hafa verið gefin út úr tímabundnum í ótímabundin. Hér er beinlínis verið að ganga gegn þjóðarhagsmunum. Hér er verið að ganga gegn fullveldisrétti íslensku þjóðarinnar þegar kemur að ráðstöfun auðlinda sem við eigum saman. Að styrkja eignarréttindi laxeldisfyrirtækjanna og eigenda þeirra vegur sem sagt þyngra hjá flokkunum sem stjórna landinu.

Hér hefur hæstv. matvælaráðherra sagt í þessari umræðu að jú, jú, þetta séu vissulega sameiginlegar eignir þjóðarinnar sem við erum að tala um, firðirnir séu jú sameign þjóðarinnar og ég sé núna á Facebook að Vinstrihreyfingin – grænt framboð er að auglýsa þessi ummæli sérstaklega, eins og þau endurspegli sérstaklega afstöðu og þá stefnu sem flokkurinn er að fylgja á Alþingi. En, hæstv. forseti, hugtakið þjóðareign hefur ósköp takmarkað þýðingu ef það er ekki tryggt að nýting á þessum auðlindum fari fram samkvæmt tímabundnum samningum eða tímabundnum leyfum. Ef okkur er einhver alvara þegar við tölum um þjóðareign auðlinda þá hlýtur það að fela í sér að nýtingarheimildir séu tímabundnar og ráðstöfun þessara auðlinda sé aldrei varanleg, aldrei gefin út varanlega til einhverra fyrirtækja.

Þannig er nú reyndar málum háttað í sjókvíaeldi hjá nær öllum þróuðum ríkjum, Chile, Færeyjar, Írland, Nýja-Sjáland, Skotland, alls staðar í þessum ríkjum eru gefin út tímabundin leyfi, ekki ótímabundin. Tímabundin leyfi en ekki varanleg leyfi. Í Noregi þar sem vissulega hafa jú verið gefin út ótímabundin leyfi er núna ríkisstjórn jafnaðarmanna og fleiri flokka búin að skrifa það sérstaklega inn í stjórnarsáttmála að héðan í frá verði einvörðungu tímabundin leyfi gefið út. En ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar vill fara í hina áttina. Vinstrihreyfingin – grænt framboð stefnir í hina áttina. Samfylkingin segir: Nei. Það verður engin sátt og það verður enginn friður um að gefa laxeldisfyrirtækjum varanleg afnot af fjörðunum okkar. Það kemur ekki til greina. Það verður enginn friður um þetta mál hér á Alþingi.