154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[19:28]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. En það er einmitt vandinn, ef ég byrja þar sem hv. þingmaður hætti, það er ekki hægt. Það er ekki hægt að stunda þessa atvinnu í sátt við náttúru. Það er vandinn. Þá er ég að tala um eldislax, eldisfisk í opnum sjókvíum. Það er búið að sýna sig. Reynslan hefur sýnt okkur það. Engu landi hefur tekist það. Það er ekki hægt að starfrækja eldi í opnu sjókvíaeldi í sátt við umhverfi og náttúru og það er einmitt kjarninn í þessu máli. Það er skítur úr fiskinum, það eru fóðurleifar, það er skordýraeitur, það er lyfjafóður, það eru þungmálmar, það er gríðarlegt magn af míkróplasti sem fer í fjörðinn. Þetta fer líka í fiskinn. Við erum að borða þetta. Meðan neytendavernd er að styrkjast í heiminum þá þarf maður líka að spyrja sig: Hvað er langt í það hreinlega að neytendur, af því að þetta er lúxusvara, í hinum vestræna heimi afli sér frekari upplýsinga um hvers konar matvara þetta er í raun og veru og spyrji: Er hún í rauninni holl? Öll þessi mengun sem hún er að valda fer líka í matvöruna sjálfa, míkróplastið allt saman t.d. og eitrin sem er verið að nota. Er þetta einu sinni söluvæn vara? Þetta skaðar umhverfið, þetta skaðar lífríkið. Þetta fer hræðilega með eldisdýrin. Þetta er allt hluti af allri framleiðslunni. Við losnum ekkert við þetta. Það er ekkert hægt að taka á þessu, þetta er ekki vandamál sem er hægt að taka á og laga einhvern veginn. Þetta er bara óumflýjanlegur hluti af þessari framleiðslu. Og þegar maður fer að tala um einhverjar útflutningstekjur, hverju erum við að skipta út, hvað erum við að gefa í staðinn? Hvað kostar náttúran okkar? (Forseti hringir.) Hvað kostar þessi óafturkræfi skaði sem er að verða á fjörðunum og vistkerfinu okkar? (Forseti hringir.) Hvað kostar það í samanburði við útflutningstekjurnar? Maður verður að spyrja sig hvort þetta sé raunverulega að borga sig.