154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

listamannalaun.

937. mál
[21:53]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi hin fjárhagslegu áhrif þá er aukningin á árinu 2028 samtals 600 milljónir. Á næsta ári eru þetta 124, síðan 26 og 280 og svo endar þetta í þessum 600 milljónum. Ef við berum saman til að mynda hver starfslaun listamanna eru í samanburði við háskólastigið allt þá get ég upplýst hv. þingmann um að starfslaun listamanna með þessari hækkun fyrir næsta ár eru 1,4% af öllu háskólastiginu og aukningin til háskólastigsins á tímum fjármálaáætlunar er 2,8 milljarðar. Ég verð nú bara að nefna það af því að hér hafa þingmenn komið og rætt um aðhald og verðbólgu og annað slíkt. Mjög mikilvægt er að við höfum þessar tölur á hreinu þegar við erum að fara yfir ríkisfjármálin og stöðu efnahagsmála.

Hv. þingmaður nefndi einnig að hann teldi að við ættum fremur að hækka launin. Ég myndi náttúrlega segja að við ættum að gera hvort tveggja. Ég vil líka upplýsa hv. þingmann um að á síðasta kjörtímabili voru listamannalaunin hækkuð. Eins og hv. þingmaður veit þá eru þetta góð laun en kannski ekki í hæstu tekjutíundunum eins og við gerum okkur grein fyrir.

Að lokum vil ég nefna þessa aukningu. Það hefur engin fjölgun verið síðan 2009, þ.e. í 15 ár. Ef engin breyting verður á starfslaunum listamanna næstu 15 árin þá nemur fjölgunin tæpum 3% á ári. Við verðum því alltaf að setja þetta í samhengi við hvenær breytingarnar eru gerðar.