154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

skráð trúfélög o.fl.

903. mál
[16:12]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Notaði ég orðið grunnþjónusta eða sagði ég mikilvæg þjónusta? Kannski hefði verið rétt að segja mikilvæg þjónusta frekar en grunnþjónusta, ég skal alveg fallast á það með hv. þingmanni. En þjónusta sem trú- og lífsskoðunarfélög veita sínum félagsmönnum, og þjóðkirkjan reyndar langt út fyrir það, held ég að sé ofboðslega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag. Það getur vel verið að okkur greini með einhverjum hætti á um það en ég ætla að skilgreina hana sem mikilvæga þjónustu. Sem dæmi erum við núna með heilt byggðarlag á flótta, Grindavík. Það hvernig sóknarpresturinn þar hefur haldið utan um sinn hóp og hvernig kirkjan hefur opnað dyr sínar fyrir Grindvíkingum held ég t.d. að sé mjög mikilvæg þjónusta á tímum sem þessum. Hvernig prestar koma að áfallaaðstoð og slíkri þjónustu held ég að skipti miklu máli og svo búum við hér við hefðir eins og giftingar, skírnir og fermingar. Það eru auðvitað fleiri trúfélög sem koma að slíku og ég held að það sé líka mikilvæg þjónusta sem trúfélög veita. Réttara er því að tala um mikilvæga þjónustu en grunnþjónustu en ég held engu að síður að hún sé að mörgu leyti algjör kjarni í íslensku samfélagi og íslenskri samfélagsgerð. Það er eitthvað sem ég myndi alls ekki vilja missa úr íslenskri samfélagsgerð og langar mig þá að vísa í ræðu sem ég hélt undir störfum þingsins í gær. Þegar við sjáum t.d. árás Rússa inn í Úkraínu er hluti af árásinni að ráðast á menningu þeirra. Verið er að sprengja kirkjurnar þeirra og menningarhúsin og reynt er að telja þeim trú um það að þau séu ekki Úkraínumenn. Ég held að trú- og lífsskoðunarfélög á Íslandi og þjóðkirkjan sem stærsta trúfélagið skipti miklu máli fyrir íslenska menningu. (Forseti hringir.) Ég skal koma að svarinu um þetta með skrána í síðara svari.