154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:01]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir málið og hv.framsögumanni nefndarálits okkar í utanríkismálanefnd fyrir framsögumanna. Málið er bæði gott, þarft og tímabært. Við fyrri umræðu málsins hélt ég því fram að við ættum öll að vera vel meðvituð um brýna þörf Úkraínu fyrir stuðning vegna yfirstandandi innrásarstríðs Rússlands. Á þeim tíma sem hefur liðið frá þeirri umræðu hefur neyðin bara aukist og þörfin fyrir stuðning okkar orðið enn brýnni. Það var til að mynda átakanlegt að lesa frásögn finnsk-eistneska rithöfundarins Sofi Oksanen af hræðilegu kerfisbundnu kynferðisofbeldi sem Rússar hafa beitt í stríðinu, ofbeldi sem hún hefur kallað nauðgunarvopn Pútíns. Tilgangurinn er sá að eyðileggja framtíð úkraínsku þjóðarinnar. Meðal heimilda fyrir ofbeldinu er símtal sem var tekið upp og gert opinbert, símtal milli nafngreinds rússnesks hermanns og eiginkonu hans þar sem hann biður einfaldlega um heimild fyrir því að nauðga úkraínskum konum. Eiginkonan gerði það aðeins að skilyrði að þurfa sem minnst að vita af ofbeldinu og auðvitað að maðurinn hennar notaði verjur við ofbeldið. Þvílíka viðurstyggðin.

Þetta stríð sem er háð í okkar heimsálfu, í okkar bakgarði, er í fullum gangi og vinir okkar, Úkraínumenn, vinaþjóð okkar í Evrópu, taka þar slaginn af fullum krafti með tilheyrandi mannfalli og manntjóni. Það hef ég séð með eigin augum. Ég verð að segja það að heimsókn mín á endurhæfingarstöðvar hermanna í Úkraínu er með skelfilegri upplifun sem ég hef orðið fyrir. Það er alveg ótrúlegt að hitta þar handa- og fótalausa og skaðbrennda úkraínska hermenn sem þakka manni kærlega fyrir stuðninginn. Með þessari stefnu tökum við örugg og mikilvæg skref í þá átt að færast nær öllum okkar nágranna- og vinaþjóðum þegar kemur að stuðningi við Úkraínu.

Með stuðningi við Úkraínu, með því að aðstoða Úkraínumenn við að verja eigin landamæri erum við um leið að standa vörð um beina öryggishagsmuni Íslands, alþjóðakerfið og alþjóðalög sem fullveldi Íslands byggir á, eins og segir í tillögunni. Þótt við séum herlaus smáþjóð, eða kannski af því að við erum herlaus smáþjóð, þá getum við ekki verið eftirbátur allra þeirra landa sem við berum okkur saman við og fylkjum liði með þegar kemur að stuðningi við Úkraínu. Hér er enda ríkur vilji til þess að vera trúverðugur og stöndugur bandamaður vina- og bandalagsríkja okkar. Stuðningur Alþingis hefur blessunarlega verið öflugur og þverpólitískur við baráttu Úkraínu. Það er þess vegna fagnaðarefni að mikill samhljómur og stuðningur allra flokka er áfram í hv. utanríkismálanefnd sem endurspeglast í framkomnu nefndaráliti. Nefndin styður tillögu hæstv. utanríkisráðherra og leggur til að hún verði samþykkt.

Skilaboð nefndarinnar eru þau að við fylgjum Norðurlöndunum þegar kemur að stuðningi við Úkraínu og undirstrika nefndarmenn að með öflugum stuðningi við sjálfstæði, sjálfsákvörðunarrétt og öryggi Úkraínu, ásamt friðarviðleitni á forsendum úkraínsku þjóðarinnar, sé jafnframt staðin varðstaða um beina öryggishagsmuni Íslands, alþjóðakerfið og alþjóðalög sem fullveldi Íslands byggjast á.