154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:16]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi fyrri hluta andsvarsins sem snýr að málsmeðferðinni á umsögninni þá skal það rifjað upp hér úr ræðupúlti að fulltrúi þingflokks Flokks fólksins, sem hv. þingmaður tilheyrir, var auðvitað á þessu áliti sömuleiðis og fylgdi þessari málsmeðferð. Ég átta mig ekki alveg á því hvort hv. þingmaður var að gera athugasemd við málsmeðferðina. (Gripið fram í.) Nei, það var þá rangt skilið hjá mér. Ég bara þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta hérna upp. Ég er sammála því að okkur gefst allt of sjaldan færi á að ræða þessi mál til lengri tíma en skemmri.

Varðandi síðari hluta andsvarsins, um það hvort Atlantshafsbandalagið hafi haft óheppileg áhrif á framvindu stríðsins, þá er þetta auðvitað ótrúlega ógeðfelld eftirásöguskýring, að varnarbandalag þessara lýðræðisþjóða hafi einhvern veginn ögrað mannréttindabrjótunum og heimsvaldasinnunum í Rússlandi til að ráðast með ógeðslegum og ófyrirleitnum hætti yfir landamæri sjálfstæðs og fullvalda ríkis. Ég vísa því algjörlega á bug að varnar- og friðarbandalagið NATO, sem hefur tekist áratugum saman, næstum því heila öld eða hartnær átta áratugi, að halda heimsfriði í okkar heimshluta, hafi einhvern veginn með sínum framgangi egnt Rússa í þetta stríð. Þetta er auðvitað bara upplýsingaóreiða, þetta er eftiráskýring, ógeðfelld söguskýring og ég vísa henni algerlega á bug.