154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:42]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir yfirgripsmikið erindi og hugvekjandi. Ég tek undir það sjónarmið að við hefðum haft gott af því að kalla inn gesti. Þó að öll nefndin væri sammála því sem hér er til umræðu og sammála um styðja við Úkraínu í víðasta samhengi þá eru umræður af þessum toga og vitundarvekjandi sjónarmið eitthvað sem við þyrftum að gera meira af og bjóða til okkar og reifa, óháð flokkslínum eða öðru. Mér fannst afar áhugaverð ábendingin um Magnitsky-löggjöfina. Svo vill til að ég þekki vel til Bills Browders sem skrifaði þá merku bók Red Notice eða Eftirlýstur. Ég hef heimsótt hann í London, verið gestur hans nokkrum sinnum, m.a. á mannúðarverðlaunahátíð sem kennd er við Magnitsky, og það er sannarlega ævintýri líkast hvernig hann hefur náð þessu, hann segist sjálfur vera óvinur Pútíns númer eitt og hafi skrifað þessa bók sem eins konar útskýringarbók, hvers vegna hann yrði drepinn af Rússum. Hér var nefnt að Rússar hefðu stríðsglæpi á samviskunni en það er því miður svo að það sama gildir um ýmsar af okkur svokölluðu vinaþjóðum. Það er stundum talað um að ef þú vilt ekki verða lúsugur skaltu ekki liggja með hundum og það væri erfitt og einangrandi ef við ætluðum að vera svo hreinlynd að vilja ekki blanda geði við neina af þeim sem hafa brotið á öðrum þjóðum. (Forseti hringir.) En mig langar til að spyrja hv. þingmann um það hvort hún myndi vilja mæla fyrir því að Magnitsky-löggjöfin yrði tekin til umræðu hér í þinginu.