154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

nýtt örorkulífeyriskerfi og fjármögnun kjarasamninga.

[15:24]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ekki-svarið því að hann svaraði ekki spurningunum mínum. Í fyrsta lagi er það alveg rétt að þetta frumvarp um breytingar á almannatryggingakerfinu er ansi umfangsmikið en það er alrangt að það megi ekki hækka lægstu laun öryrkja engu að síður og taka þann þátt út fyrir sviga. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort honum þætti öryrkjar vera of sælir af þessari sáru fátækt sem þeir eru hnepptir í. Hann svaraði því náttúrlega ekki. Síðan kemur það líka bersýnilega fram í fjármálaáætlun að þar er gert ráð fyrir því með auknu svigrúmi, til þess að geta tekist á við þennan kjarapakka sem ríkisstjórnin var stíga inn í, að það skuli fresta gildistöku og draga þar með 10 milljarða til öryrkja til september 2025 til að geta fjármagnað þetta loforð um kjarapakkann. Þannig að það er rangt. Það kemur bersýnilega fram í fjármálaáætlun. Og líka hitt, (Forseti hringir.) það má hækka laun öryrkja engu að síður þó að allt annað hefði verið látið bíða lengur.