154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

skaðaminnkandi úrræði fyrir fólk með fíknivanda.

[15:38]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó að hann hafi svo sem ekki svarað spurningu minni um hvers vegna hafi ekki verið gripið til einhverra úrræða áður en þessi staða kom upp sem búið var að vara við. Í mörg ár hefur ríkt samhljómur í samfélaginu um afglæpavæðingu og mikilvægi skaðaminnkunar. Núverandi löggjöf hefur beinar afleiðingar og hér eru þær: Fólk grípur til örþrifaráða, líkt og varað var við mánuðum saman og árum saman. Heilbrigðisstarfsfólk hefur kallað eftir aðgerðum og bent á skaðaminnkunarúrræði sem tíðkast í löndum sem við berum okkur saman við. Vitað er að minni hluti skilar sér í þau úrræði sem fyrir hendi eru hér á landi og hefur verið bent á það. Hugmyndafræði skaðaminnkunar krefst þess að við horfumst í augu við þann veruleika að fólk notar vímuefni og að við setjum lög og reglur í samræmi við rétt fólks til heilbrigðisþjónustu óháð því.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hversu lengi eigum við að bíða eftir því að ráðherra sjái ljósið og taki málefni fólks með fíknivanda úr heljargreipum refsivörslukerfisins (Forseti hringir.) og færi í skynsamlegri farveg, t.d. með afglæpavæðingu eða regluvæðingu?