154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

aðgerðir vegna kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis.

[15:50]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Líkt og hv. þingmaður greindi frá hér áðan í ræðustól kom út greining á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis árið 2023. Þessar miðstöðvar eru að því leytinu einstakar að þær eru þverfaglegar. Þarna eru sveitarfélög, þolendasamtök, heilbrigðisstofnanir, lögregla og fleiri sem leggja til starfsfólk þannig að hægt sé að veita þolendum kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis sem mesta þjónustu á einum stað. Við erum með í rauninni þrjú samtök sem starfa eftir þessum módelum á Íslandi, þ.e. Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri og Sigurhæðir á Selfossi.

Án þess að fara út í að rekja hverjar helstu niðurstöður þessarar greiningar, sem unnin var á vegum ríkislögreglustjóra, voru þá tel ég að það sé kannski réttara að greina frá því hvað er að gerast núna. Ég skipaði starfshóp á meðan á framangreindri greiningarvinnu ríkislögreglustjóra stóð, sem var falið að skoða laga- og reglugerðarumhverfi þjónustu vegna ofbeldis og koma þá með tillögur um hvernig best mætti tryggja þessa þjónustu sem þarf, nota bene, að standa bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða og ekki síst með tilliti til Istanbúl-samningsins. Starfshópurinn skilaði skýrslu með 18 aðgerðum sem miða að því að tryggja þjónustu sem standa þarf bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða. Ég vil sérstaklega nefna þar breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem m.a. myndu gera ráð fyrir því að það hlutverk sveitarfélaga að veita þessa þjónustu væri lögfest, en líka breytingar á lögum um nálgunarbönn og brottvísanir svo að eitthvað sé nefnt. Þarna voru síðan fleiri tillögur sem ég get kannski fengið tækifæri til að koma inn á í síðara svari.