154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

aðgerðir vegna kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis.

[15:53]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég nefndi hér áðan að forgangsatriði sem heyrir undir ráðuneytið hjá mér eru breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ein af tillögunum var jafnframt að koma annaðhvort á fót nýrri stofnun eða fela t.d. Jafnréttisstofu eftirfylgd með stefnu stjórnvalda í ofbeldismálum — þetta eru veigamiklar tillögur sem þarna komu fram — og síðan um fjármögnun þessara félagasamtaka. Við vinnum eftir þeirri grófu tímalínu, erum kannski ekki búin að setja þetta nákvæmlega niður fyrir okkur, að geta komið fram með frumvarp á næsta löggjafarþingi sem fæli þá í sér breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Við erum í samtali við forsætisráðuneytið um það sem snýr að því og ekki er komin endanleg niðurstaða í hvernig það gæti litið út.

Svo vil ég líka minna á að ráðuneytið styður við fjölmargar af þessum miðstöðvum (Forseti hringir.) og önnur félagasamtök sem eru að sinna svipuðu starfi.