154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

meðferð sakamála, meðferð einkamála, gjaldþrotaskipti o.fl.

691. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla bara að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, þetta eru fínir punktar inn í umræðuna. Það er mikilvægt að ræða aðeins þennan punkt varðandi rafrænar birtingar í einkamálum. Það er ekki viðfangsefni þessa máls og á ekki að koma til álita að það verði möguleiki. Við erum að tala um rafrænt pósthólf stjórnvalda þar sem birta á ákærur eins og staðan er í dag, og það breytist ekki. Ég hafði ekki heyrt af þessu sem hv. þingmaður nefndi með innheimtufyrirtæki, en með léttri leit á internetinu fann ég þessa frétt. Ég get greint frá því að ekki er gert ráð fyrir því að einkaaðilar hafi aðkomu að island.is. Ég þekki það ekki en ég geri ekki ráð fyrir því að það sé stefnan að einkaaðilar hafi aðgang að island.is sem yrði þá hin rétta leið til stefnubirtinga. En það sem mér sýnist og ég les út úr þessari frétt, án þess að ég ætli eitthvað að tjá mig nánar um hvernig þetta fyrirkomulag á að vera, er að það eigi ekki við um stefnubirtingar í einkamálum, bara svo að það sé algerlega á hreinu, heldur er þar verið að tala um rafræna birtingu greiðsluáskorana og frekari innheimtu.

Mig langaði bara að koma hingað upp og fá að árétta þetta. Ég er ekki viss um að þetta sé rétti farvegurinn til að beina þessum kröftum að af því að ekki er átt við stefnubirtingu í pósthólfi stjórnvalda í þessu tilviki. En það er vert að vera á tánum í þessum málum eins og hv. þingmaður er greinilega.