154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

meðferð sakamála, meðferð einkamála, gjaldþrotaskipti o.fl.

691. mál
[17:09]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þarna er ekki verið að ræða um stefnubirtingar. Þær hafa hingað til farið eftir opinberum leiðum. Málið er að hér er verið að ræða um hliðstæða hluti út af fyrir sig en í tveimur frumvörpum, annars vegar frá dómsmálaráðherra og hins vegar í þessu umrædda frumvarpi. Annað er líka að það hallar verulega mikið, ég get ekki einu sinni útskýrt hversu mikið, á neytendur, skuldara eða hver sem það er, í svona málum og varnir þeirra eru litlar. Það hefur einhvern veginn verið reynslan í gegnum tíðina að það er byrjað einhvers staðar og svo er því lætt inn annars staðar með einhverjum öðrum hætti. Þarna er um tvö aðskilin lög að ræða, ég geri mér grein fyrir því. En eins og ég sagði, meginpunkturinn er þessi: Það hlýtur að þurfa að samræma þetta. Kannski þurfa tvö ráðuneyti, tvær nefndir, hvernig sem það er, að ræða aðeins saman. Það sama hlýtur að þurfa að gilda á báðum stöðum vegna þess að þarna er verið að skilja fólk eftir — ef við tökum bara stefnubirtingar í nauðungarsölum, málum sem ég þekki best, hefur fólk staðið verulega höllum fæti. Það bara gengur ekki að hægt sé að selja ofan af fólki húsið af því að það áttar sig ekki á að það þarf að skoða einhver rafræn skilaboð sem það hefur jafnvel ekki áttað sig á að það hafi fengið. Og það er alveg þannig. Það eru ekkert allir í sömu stöðu með alla hluti. Við verðum alltaf að hugsa þessa hluti út frá hagsmunum fólksins í landinu en ekki út frá hagsmunum þeirra sem eru að birta þessar stefnubreytingar og finnst ofboðslega þægilegt að geta bara ýtt á einn takka. Það á ekki að vera þannig. Það á frekar að gera þetta erfiðara en léttara. (Forseti hringir.) En aðalatriðið er að þarna þarf að vera samræmi á milli.