154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Pólitísk hugmyndafræði, rétt eins og trúartengd hugmyndafræði, hefur leitt til átaka og sennilega mestu blóðsúthellinga og hörmunga mannkynssögunnar. Menn toguðust á hér í gegnum tíðina og rifust um afstöðu til efnahagskerfa. Það var kommúnismi versus kapítalismi. Svo hafa umhverfismálin orðið fyrirferðarmeiri í umræðunni, sem betur fer. Við erum ekki eins föst í trúnni og við vorum. Við erum tilbúin að horfa á möguleika annarra hugmynda en okkar sjálfra sem hugsanlega betri hugmynd. Nú hefur það gerst hér í þinginu hvað varðar þá afleitu hugmynd sem var kynnt okkur hér fyrir helgi um ótímasetta afhendingu fjarðanna okkar til stórfyrirtækja frá öðrum löndum, að eftir að tekið var til skrifa og máls um það efni þá hafa þeir sem lögðu þetta fram séð að sér og ákveðið að þetta var hugsanlega ekki eins góð hugmynd og þeir héldu sjálfir, eða lögfræðingarnir sem vísað er til, sem hljóta eiginlega að hafa verið norrænir eða Norðmenn, lögfræðingar þeirra sem áttu mestra hagsmuna að gæta. Það á eftir að koma í ljós. Ég tel að batnandi manni sé best að lifa og ef þeir sem eru tilbúnir að viðurkenna að kannski var lagt upp á röngum nótum eru tilbúnir að sjá að þetta var byggt á misskilningi eða röngum hugmyndum, þá tel ég það til góðs. Ég held að við ættum líka að horfa til þess að sami flokkur, VG, sem hefur hunsað vilja gervalls Alþingis í einu tilteknu máli sem varðar (Forseti hringir.) hagsmunafulltrúa aldraðra, muni hugsanlega sjá að sér og snúa af þeirri óheillabraut að láta sem það hafi aldrei verið samþykkt hér á Alþingi.