154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Í gær fengum við fregnir af því að meðferðarstöðin Vík verði lokuð í sumar. Aðspurður sagði heilbrigðisráðherra að það væri ekkert mál að redda þeim fjármunum sem þyrfti í verkefnið. Hann væri alltaf tilbúinn í samtalið. Athugið að á sama tíma og það eru 700 manns á biðlista bara eftir að komast inn á Vog og 100 manns inn á Krýsuvík þá á að fara að loka eftirmeðferðarstöðinni sem skiptir öllu máli. Hér ýjar ráðherra að því að SÁÁ þurfi bara að spyrja og þá muni hann hlaupa undir bagga. Hvernig væri nú að sýna í staðinn smá frumkvæði? Heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin öll hefur ítrekað hafnað tillögum okkar í Flokki fólksins og annarra stjórnarandstöðuflokka um að auka framlög til SÁÁ. Við höfum kallað eftir auknu fjárframlagi til að bregðast við vaxandi vanda árum saman. Hvað segja ríkisstjórnarflokkarnir þegar tillögurnar koma til atkvæða? Nei, nei og aftur nei. Þetta er ósanngjarnt. Þess vegna er það svo ósmekklegt þegar heilbrigðisráðherra segir síðan að það sé alls ekkert vandamál að tryggja fjármuni til að halda meðferðarstöðinni Vík opinni yfir sumarið. Ríkisstjórnin hefði getað veitt þessa fjármuni í atkvæðagreiðslum um fjárlög síðustu jól en greiddi atkvæði gegn því. Flokkur fólksins lagði til að aukaframlag til SÁÁ um 520 milljónir um síðustu áramót. Allir þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem voru viðstaddir sögðu nei.

Það er óásættanlegt að ríkisstjórnin hunsi fíkniefnavandann ár eftir ár. Þetta er banvænn sjúkdómur og menn eiga ekki að þurfa að vera í biðröð til að komast að, ekkert frekar en þeir sem eru með hjartveiki eða krabbamein eða hvað annað eiga ekki að þurfa að bíða. (Forseti hringir.) Það þarf að fjármagna SÁÁ með viðhlítandi hætti, ekki núna heldur strax.