154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Mig langar hér í dag að gera að umtalsefni mínu þá stöðu sem er að teiknast upp innan löggæsluembætta landsins og hefur gert um síðustu ár. Fjöldi lögreglumanna í landinu er svipaður og fjöldi starfandi lögreglumanna var fyrir 35 árum þrátt fyrir að íbúum landsins hafi fjölgað um 60% á sama tíma, ef tekin er inn í myndina stytting vinnuviku lögreglunnar. Þá er þjóðfélagsgerðin mikið breytt, gríðarlegur fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið, sem og að Ísland fer ekki varhluta af skipulagðri brotastarfsemi og netbrotum sem virða engin landamæri. Breyttum viðfangsefnum lögreglunnar hefur verið mætt af stjórnvöldum með millifærslum innan innra skipulags. Til að auka við rannsóknir kynferðisbrota, heimilisofbeldis, efnahagsbrota, skipulagðrar brotastarfsemi, svo eitthvað sé nefnt, fækkar í útkallslögreglu. Staðan þar er orðin langt frá því að vera viðunandi; allt of fáir á vakt, menntunarhlutfall óviðunandi og þeir sem eru menntaðir eru með litla starfsreynslu. Þrátt fyrir að ársverkum löggæslustofnana, þ.e. ekki bara lögreglumanna heldur allra starfsmanna stofnana, hafi fjölgað verulega á tímanum frá 2015–2023 sem og að rekstrarframlög hafi hækkað umfram verðbólgu og launavísitölu, hlutfallslega mest hjá ríkislögreglustjóra, um 226%, og minnst hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, 108%, þá segir það ekki alla söguna, virðulegur forseti. Ljóst er að sú hækkun á framlögum og fjölgun ársverka hefur farið í átaksverkefni og ný verkefni tengd breyttum veruleika lögreglu en eftir sitja embættin með skerta grunnþjónustu útkalls og grunnrannsóknir. Því er afar brýnt að brugðist verði við í nýrri fjármálaáætlun því útkallslögregla er mikilvægur þáttur í grunninnviðum þjóðarinnar sem við verðum að tryggja svo lögregluembætti landsins geti sinnt verkefnum sínum lögum samkvæmt.