154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegur forseti. Sólin skín og það virðist stefna í mjög spennandi, lýðræðislega kosningabaráttu um embætti forseta Íslands. Við erum að taka þátt í Eurovision, að mér skilst reyndar, en við erum engu að síður að taka þátt í Eurovision. Einhver myndi segja að þessi atriði væru gott merki um farsælt og gott samfélag og það er það aldeilis, en við erum einnig svo heppin hér að geta nefnt mýmörg önnur atriði sem eru til marks um okkar góða samfélag. Við erum á efstu listum allra þeirra lista sem við viljum gjarnan vera á. Hér erum við með frið, annað en vinir okkar í Úkraínu sem við vorum að styðja við hér í gær. Við erum með jafnrétti. Við erum með jöfnuð, þann mesta í heimi, þrátt fyrir að umræðan hér kannski vísi oft í aðrar staðreyndir hvað það varðar er það hins vegar staðreynd, og svo mætti lengi telja. Við erum í stuttu máli, forseti, í einu besta samfélagi heims. En það breytir því ekki að hér má oft gera betur og við erum í þeirri lúxusstöðu að geta þá horft og einbeitt okkur að hinum smærri atriðum sem aðrar þjóðir geta ekki einu sinni leyft sér.

Eitt af þeim atriðum sem mig langar til að nefna er staða þess fólks sem er að glíma við frjósemisvanda og þarf á aðstoð tæknifrjóvgunar að halda. Það stendur mér nærri og ég hef lagt fram mál hér á þingi, bæði hvað varðar að efla sjálfsákvörðunarrétt og tækifæri fólks í þeirri stöðu sem og að finna leiðir til að efla kostnaðarþátttöku hins opinbera. Og ég ætla að halda áfram að leggja fram þau mál svo lengi sem þess þarf því að það er mikið sanngirnisatriði gagnvart því fólki sem er í þeirri (Forseti hringir.) sársaukafullu stöðu að geta ekki eignast börn. Með því, forseti, munum við gera þetta góða samfélag enn betra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)