154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:19]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég var að leita upplýsinga í morgun um þriðju uppfærslu aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem mér skilst að hafi átt að birtast í apríl. Það er 30. apríl. Ég fann hana ekki. Kannski getur hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra upplýst okkur um stöðuna á því mikilvæga verkefni. Eins og hér hefur komið fram starfa stjórnvöld enn samkvæmt gamalli aðgerðaáætlun sem er nú líklega orðin fjögurra ára gömul þetta vorið. Það er eitthvað sem þarf að uppfæra og er búið að ræða lengi og eiginlega óskiljanlegt að hún hafi ekki litið dagsins ljós.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það er mjög þrýst á orkunotkun, sérstaklega af hálfu stórnotenda hér á landi þessi misserin. En það er ekkert sjálfgefið í því og það er ekkert í lagaumgjörð og reglum hér sem tryggir að ný, græn orkunotkun eða orkuöflun hér á landi skili sér í orkuskiptin, auk þess sem við erum ekki búin að gera áætlun um þessi margumtöluðu orkuskipti.

Hæstv. forseti. Eigum við ekki að reyna að gera hlutina hér, a.m.k. tilraun til að gera það, í réttri röð og kannski líka búa okkur undir það sem við vitum er á leiðinni til okkar? Það er bent á það í nýbirtri samantekt Hrafnhildar Bragadóttur fyrir loftslagsráð að „Fær í 55“ eða „Fit for 55“ frá Evrópusambandinu mun mjög svo auka kröfurnar hér í gegnum EES-samninginn um frekari samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Og á meðan við vitum ekki í dag hvort við náum núverandi markmiðum árið 2030 eða þeim sem við höfum bundið í lög árið 2040 þá erum við heldur ekki í færum til þess að aðlagast frekari kröfum sem við munum þurfa að undirgangast.