154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:21]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu, málshefjanda og þeim sem hér eru og munu taka til máls. Fyrst: Minnum okkur á það að við erum sennilega ein grænasta, sjálfbærasta þjóð í heimi, rík af auðlindum og grænni orku sem við erum þegar búin að vera að virkja og nýta samfélaginu til góðs og það eru gríðarleg sóknarfæri fram undan. Aðalmálið snýst um að við gerum þetta í sátt við samfélagið og hvort annað, gerum þetta fallega og í þágu heildarinnar, að við séum ekki að framselja dýrmæta aðstöðu, dýrmætar orkulindir hér einhverjum óviðkomandi, bröskurum utan í heimi. Við erum vonandi núna að afstýra því að vera að afhenda norskum mógúlum firðina okkar til fiskeldis ótímabundið, sem eru góðu fréttir dagsins og gærdagsins.

En það sem mér finnst að við þurfum að leggja áherslu á núna er að fara að þeim áætlunum sem lagðar hafa verið fram. Ramminn er skýr. Við þurfum að gæta okkar á því að verða ekki eins og Skotar og Þjóðverjar og að einhverju leyti Danir með 100 og 200 metra turna með Mercedes Benz merkjum á snúningi hér um allt okkar fagra land. Veljum af kostgæfni örfáa staði sem við ætlum að nýta vindorku á, helst úr alfaraleið. Við skiljum þá sem hafa áhyggjur af Hvammsvirkjun eða sínum heimahögum. Engan í þessum sal myndi fýsa að virkja Elliðaárnar með neinum stórkarlalegum hætti. Við verðum að taka tillit til allra þessara sjónarmiða. Ég er ekki haldinn neinum kvíða eða lofthræðslu af neinum toga, eins og Morgunblaðsmenn kalla það, (Forseti hringir.) en við eigum að sjálfsögðu að fylgja þeirri stefnu sem við höfum markað og ég styð hugmynd um mælaborð stjórnvöldum til handa í orkumálum. Ég styð þá hugmynd heils hugar.