154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:44]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hæstv. ráðherra leggur mikla áherslu á græna orku og nauðsyn þess að tryggja orkuöryggi um land allt. Því get ég að mörgu leyti verið sammála. Hins vegar tel ég mikilvægt að halda því til haga, líkt og málshefjandi og aðrir hv. þingmenn hafa gert hér á undan mér, að eins og staðan er núna er ekkert sem skilgreinir það að orka sem aflað er fari í orkuskiptin. Á samkeppnismarkaði er ekki sjálfgefið að nýir orkukostir fari í orkuskiptin og þess vegna þurfum við að gæta þess. Forgangsröðun orku til innlendra orkuskipta er lykilatriði ef markmið okkar um kolefnishlutleysi og jarðefnaeldsneytislaust Ísland eiga að nást. Það er mikil þörf á því að skapa umgjörð raforkumála sem tryggir það að ný orka, hvort sem hún kemur til vegna nýrra orkukosta, orkusparnaðar eða orku sem losnar, renni til orkuskipta.

Við vitum að það tapast ógrynni orku í núverandi kerfi og það þarf að styrkja flutningskerfi raforku. Svigrúm í flutningskerfinu hefur lengi verið lítið, sér í lagi á landsbyggðinni. Við sjáum jú nýleg dæmi þess, t.d. á Vestfjörðum þar sem raforka er tryggð með óákjósanlegum orkugjöfum líkt og dísilolíu með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélag og umhverfi. Þetta er vissulega ótækt ástand sem úr þarf að bæta og hér er mikilvægt að lausnir séu í sem mestri sátt við náttúru og samfélag. Við verðum að gera allt sem við getum til að nýta þegar framleidda orku betur áður en við ráðumst í stórfellda nýja orkuöflun. Það er góð og skynsamleg auðlindanýting. Það kostar nefnilega auðlindir, orku og losun að byggja virkjanir, óháð því hvers konar virkjanir er um að ræða. Orkan okkar er endurnýjanleg en ekki óendanleg og ákvarðanir sem teknar eru í dag setja stefnuna fyrir næstu árin, áratugina og komandi kynslóðir.