154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

tekjuskattur.

918. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega margt sem mig langar að segja um þetta og ég mun koma betur að því í umræðu um nefndarálit á eftir. Það er náttúrlega alveg gríðarleg forræðishyggja í þessu, að taka fram fyrir hendurnar á fólki en líka bara einhvern veginn enginn skilningur á því hver staðan raunverulega er. Miðað við 10,75% vexti hjá Landsbankanum er árleg vaxtaafborgun af 30 millj. kr. láni 3,2 milljónir, 4,3 af 40 milljónum og 5,4 af 50 milljónum. 200.000 kr. inn á höfuðstól svona láns munu lækka árlega afborgun lánsins um 21.500 kr. Það er það sem hún mun lækka um, þannig að í aðalatriðum erum við að tala um að í algjöru tilgangsleysi er verið að moka 5–7 milljörðum beint til bankanna, í rauninni bara í fangið á þeim. Þetta skiptir engu máli í stóra samhengi hlutanna fyrir einn eða neinn. Vandi fjölskyldna í dag er ekki lækkun höfuðstóls heldur lausafjárvandi og einmitt að geta greitt það sem þarf að greiða, t.d. fyrir börn, eða eins og einhver kom inn á áðan að skipta um dekk áður en fólk fær 80.000 kr. sekt fyrir að vera enn á nagladekkjunum þegar það hefur ekki efni á sumardekkjum.