154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

tekjuskattur.

918. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Fyrsti minni hluti gerir engar athugasemdir við barnabótahluta frumvarpsins en gerir einfalda breytingartillögu hvað varðar vaxtabæturnar og þá sérstaklega hvernig standa á að greiðslu þeirra. Fyrsti minni hluti mótmælir harðlega því að búið sé að ráðstafa þeim fyrir heimilin í stað þess að þau fái þær í hendur til eigin nota. Fyrsti minni hluti leggur því til þá breytingu að 3. málsliður 5. töluliðar b-liðar 1. gr. orðist svo:

Ákvörðun um ráðstöfun er bindandi en ef ekkert er valið skal sérstakur vaxtastuðningur greiddur út í formi eingreiðslu.

Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar gerir ráð fyrir að þessi sérstaki vaxtastuðningur verði lagður inn á höfuðstól lánsins eða að hægt sé að dreifa honum jafnt á afborganir seinni helmings ársins. Verði ekkert valið fyrir lok júní er stuðningnum ráðstafað inn á höfuðstól.

Ég velti fyrir mér hvernig þetta samræmist markmiðum frumvarpsins eins og þeim er lýst í kafla 3.2, um að vaxtastuðningurinn eigi að koma til móts við þunga vaxtabyrði heimila í lág- og millitekjuhópum. Í þeim kafla kemur einnig fram að áætlað umfang sérstaks vaxtastuðningsins nemi 5–7 milljörðum kr.

Nú er það svo að sú sem hér stendur á alltaf erfitt með umræður um vaxtabætur. Í eðli sínu eru vaxtabætur niðurgreiðsla ríkisins á vöxtum sem gerir bönkunum kleift að halda vaxtastigi hærra en ella og viðhalda þeim lengur en þeir annars gætu. Þannig eru heimilin blóðmjólkuð af bönkunum sem hagnast gríðarlega en ríkið fer svo í sameiginlega vasa þessara sömu heimila og endurgreiðir þeim hluta þess sem bankarnir hafa tekið og af því leiðir, að sjálfsögðu, að ríkið hefur minna en annars til umráða á meðan bankarnir halda öllu sínu. Ég hef stundum sagt að vaxtagreiðslur séu styrkur til bankanna svo þeir geti haldið áfram að vaxtapína fólkið.

Að þessu öllu sögðu er umhverfið hér á landi þó jafn hræðilegt og raun ber vitni og því erfitt að mótmæla því að heimilin fái fjármagn í vasann til að létta þeim róðurinn. En nú ber svo við að fólkið, heimilin í landinu, eiga ekki að fá þessa peninga í vasann. Forræðishyggja ríkisstjórnarinnar gagnvart fólki, vaxtapíndu fólki, er svo mikil að það á að taka af fólki valdið til að ráðstafa þessum vaxtastuðningi. Honum er hreinlega ráðstafað beint til bankanna án þess að eiga nokkra millilendingu hjá þeim sem hann á að hjálpa. Þannig að fólkið sem búið er að vaxtapína svo mikið að það hefur ekki haft efni á því að fara til tannlæknis, gera við bílinn, kaupa stærri skó á ört stækkandi börn o.s.frv. mun enn þá ekki geta það þrátt fyrir þessar vaxtabætur. Þær fara nefnilega beint til bankanna. Forræðishyggjan er svo mikil hjá þessari ríkisstjórn gagnvart venjulegu vaxtapíndu fólki að það á ekki að gefa þeim valið.

Það hljómar óneitanlega alltaf mjög skynsamlega að greiða beint inn á höfðustól lána en það fer þó eftir samhengi hlutanna og sú skynsemi á alls ekki við í dag. Núna er vandi heimilanna nefnilega greiðslu- og lausafjárvandi. Lækkun höfuðstóls upp á 200.000 á 50 millj. kr. láni samsvarar 21.500 kr. lækkun greiðslna á einu ári, eða 0,004% lækkun vaxta. Miðað við þessar forsendur eru það 1.792 kr. á mánuði.

Þetta er framlag ríkisstjórnarinnar þar sem vaxtagreiðslur einar og sér eru 269.000 af 30 milljón kr. láni á hverjum mánuði, 358.000 af 40 millj. kr. láni á hverjum mánuði og 448.000 kr. af 50 millj. kr láni á hverjum mánuði sé miðað við Landsbankann þar sem breytilegir vextir á óverðtryggðum lánum eru 10,75%.

Ráðstöfun til jöfnunar afborgana, sem er líka gefinn kostur á, er öllu skárri en getur þó ekki skilað meiru en sem nemur lækkun á greiðslubyrði um 41.667 kr. á mánuði á seinni helmingi þessa árs.

41.000 kr., eða tæpar 42.000 kr,. eru jú alltaf eitthvað en miðað við vaxtagreiðslurnar sem ég las áðan eru 42.000 kr. ekki nema 9,3–11,6% lækkun afborgunar á mánuði. 10% lækkun vaxtaafborgana getur nú ekki talist mikið í samhengi hlutanna.

Svo má nefna að upphæðirnar sem ríkisstjórnin er að ætla í að hjálpa heimilum sem eru vaxtapínd í hennar skjóli eru 5–7 milljarðar kr. Árið 2013 setti þáverandi ríkisstjórn 11 milljarða í vaxtabætur. Hvað ætli 11 milljarðar árið 2013 séu á verðlagi ársins 2024, þegar sitjandi ríkisstjórnin ætlar af rausnarskap sínum að leggja til 5–7 milljarða?

Hér rekst reyndar hvert á annars horn því þegar verið að leggja 5–7 milljarða beint í fjárhirslur bankanna er sú upphæð allt of há, en ríkisstjórnin 2012 hafði það einnig það fram yfir þá sem nú er að greiða þessa upphæð beint til heimilanna til ráðstöfunar.

Það er ekki mikill bragur á þessu en að þessu sögðu ætla ég að lesa álit fyrsta minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Fyrsti minni hluti telur afar mikilvægt að stjórnvöld aðstoði heimili landsins sem um þessar mundir glíma við himinháa greiðslubyrði óverðtryggðra lána eða sífellt hækkandi höfuðstól verðtryggðra lána. Í tengslum við gerð kjarasamninga fyrr í vor hefur ríkisstjórnin lagt fram frumvarp um sérstakan vaxtastuðning. Það úrræði sem frumvarpið leggur til nær þó ekki markmiði sínu, nema að litlu leyti. Vaxtabætur eru í eðli sínu tilfærsla frá stjórnvöldum til bankakerfisins. Því hærri sem vaxtabæturnar eru, því meira rukka bankarnir. Almenningur fær sjaldan að njóta góðs af hækkun þeirra. Sú aðgerð sem frumvarp þetta fjallar um er aðeins nýjasta dæmið.

Í frumvarpinu er lagt til að greiddur verði sérstakur vaxtastuðningur sem getur að hámarki verið 150.000 kr. í tilfelli einstaklinga, 200.000 kr. í tilfelli einstæðra foreldra og 250.000 kr. í tilfelli hjóna og sambýlisfólks. Gallinn í þessu úrræði er þó ekki fjárhæð stuðningsins, heldur fyrirkomulagið. Boðað er að vaxtastuðningnum skuli ráðstafað inn á höfuðstól þess húsnæðisláns sem ber hæstar eftirstöðvar hjá viðkomandi, nema ef þess er óskað að stuðningnum verði varið til jafnrar lækkunar á afborgunum tiltekins láns út árið 2024.

Markmið aðgerðarinnar missir algjörlega marks ef greiða á vaxtastuðninginn beint inn á höfuðstól lána. Það hefur lítil sem engin áhrif á fjárhag fólks sem glímir við aðkallandi greiðsluvanda. Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um frumvarpið má finna dæmi um hve lítil áhrif slík ráðstöfun hefði, en þar segir: „Til að setja það í samhengi við 10% ársvexti sem er nálægt því sem nú á við um flest lánaform myndi slík niðurgreiðsla á höfuðstól aðeins lækka vaxtabyrði um 1.250–2.083 kr. á mánuði.“ Fyrsti minni hluti vill einnig taka undir ábendingu Hagsmunasamtaka heimilanna um mikilvægi þess að ekki verði tekin uppgreiðslugjöld af ráðstöfun sérstaks vaxtastuðnings inn á höfuðstól húsnæðislána.

Ráðstöfun til jöfnunar afborgana er öllu skárri, en getur þó ekki skilað meiru en sem nemur lækkun á greiðslubyrði um 41.667 kr. á mánuði, á seinni helmingi þessa árs. Fyrsti minni hluti telur að betur færi ef fólk fengi sérstakan vaxtastuðning greiddan beint inn á bankareikning. Slík tilhögun myndi veita fólki í aðkallandi greiðsluvanda meira svigrúm en sú tilhögun sem frumvarpið boðar. Þannig hefði fólk ráðrúm til að losa sig undan þeim skuldum sem bera hærri vexti, svo sem yfirdráttarlán. Uppgreiðsla yfirdráttar um 250.000 kr. skilar margföldum ávinningi samanborið við niðurgreiðslu höfuðstóls húsnæðisláns um sömu fjárhæð.

Fyrsti minni hluti gerir ekki athugasemd við þann þátt frumvarpsins sem snýr að barnabótum en leggur til breytingartillögu við b-lið 1. gr. frumvarpsins sem fjallar um sérstakan vaxtastuðning. Fyrsti minni hluti leggur til að sérstökum vaxtastuðningi verði ráðstafað beint til fólks í formi eingreiðslu.

Með vísan til framangreinds leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

3. málsliður 5. töluliðar b-liðar 1. gr. orðist svo: Ákvörðun um ráðstöfun er bindandi en ef ekkert er valið skal sérstakur vaxtastuðningur greiddur út í formi eingreiðslu.

Rökin sem ég hef heyrt fyrir því að samþykkja þá tilhögun sem lögð er fram í frumvarpinu er að um þetta hafi verið samið við verkalýðshreyfinguna. Við því vil ég segja að ég hef enga trú á því að með þessari tilhögun hafi kröfum verklýðshreyfingarinnar verið mætt. Ég er sannfærð um að lengra hafi einfaldlega ekki verið komist, enda eru það almennt bankarnir sem njóta meiri stuðnings þessara ríkisstjórnar en heimilin í landinu.

Fari þetta atriði óbreytt í gegn er ríkissjóður einfaldlega að styrkja bankana um 5–7 milljarða með almannafé. Skorturinn er ekki þar. Bankarnir synda í peningum heimilanna og ná hvergi til botns. Heimilin eru hins vegar í verulegum vanda og þó ekki sé þetta mikið upp í allt það sem frá þeim hefur verið tekið á undanförnum tveimur árum getur þetta þó létt þeim lífið, fái þau þetta fjármagn í eigin vasa til ráðstöfunar. Ég vona að hv. þingmenn samþykki breytinguna, sem munar engu fyrir ríkissjóð, svo að þessir fjármunir verði greiddir beint til heimila landsins til ráðstöfunar.