154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

tekjuskattur.

918. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, það er alveg rétt að það stendur í samkomulaginu að greiða skuli þessar sérstöku vaxtabætur inn á lánin. En kjarasamningar snúast um ráðstöfunartekjur fólks. Ég geri ekkert athugasemdir við það að upphæðin öll sé greidd inn á höfuðstól lánanna. Þar er ekki flækjustigið eða villuhætturnar. Flækjustigið og villuhætturnar eru ef fólk velur að fá jafnar greiðslur það sem eftir er á árinu 2024. Þá kemur upp flækjustig sem bæði umsagnir frá lífeyrissjóðum og samtökum fjármálafyrirtækja útskýrðu svo vel fyrir okkur, að þar sé ákveðið flækjustig. En það að greiða þetta út beint til fólksins breytir ekki ráðstöfunartekjunum. Það uppfyllir markmið samkomulagsins fullkomlega.

Við erum svolítið, frú forseti, finnst mér, að flækja okkur inn í einhverjar tæknilegar útfærslur á máli sem er í raun einfalt. Útgangspunkturinn eru ráðstöfunartekjur fólksins, það er þannig í kjarasamningum. Flækjustigið sem er þarna á milli breytir engu í þeim efnum ef fólk velur þá leið sem varðar afborganir. Þess vegna finnst mér skynsamlegt, frú forseti, að við einföldum þetta eins og hægt er, búum ekki til yfirvinnu, óþarfa tækjakaup og hugsanlega þá þenslu sem það mun valda, heldur förum einfalda leið.