154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

tekjuskattur.

918. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Líkt og ég sagði í ræðu minni þá er ég mjög ánægð með að það skuli hafa náðst samkomulag með þessum hætti til að greiða fyrir kjarasamningum. Þó að ég hefði kannski haft töluviðmiðin einhver önnur þá koma þessar aðgerðir sér mjög vel bæði fyrir barnafólk og fólk sem skuldar húsnæðislán. Það sem ég er að tala um er hvernig við framkvæmum einn part af þessum lausnum og hv. þingmaður veit það jafn vel og ég að sú breyting sem ég er að leggja til mun ekki skipta neinu máli fyrir verðbólgu eða þenslu. Það skiptir ekki máli hvort að ég tek 140.000 kr. úr hægri vasanum og Fjársýslan borgar 10.000 á móti eða hvort að ég borga 150.000 úr hægri vasanum og Fjársýslan setur 10.000 í vinstri. Þetta er nákvæmlega sama dæmið. Niðurstaðan er nákvæmlega sú sama þannig að markmiðin nást með einfaldari framkvæmd. Þannig að ég er ekki að gera athugasemd við neitt annað heldur en framkvæmdina og framkvæmdin sem ég legg til mun ekki breyta neinu varðandi verðbólgu eða þenslu eða önnur þau markmið sem áttu að nást með þessum kjarasamningum. Ég veit ekki hvernig ég get orðað þetta skýrar. En ég vona að hv. þingmaður sé sammála því að þetta dæmi er nákvæmlega það sama og mun ekki rugga bátnum heldur gefa sömu niðurstöðu með einfaldari framkvæmd. Við eigum ekki að festa okkur í framkvæmd sem gefur aukna hættu á villum og því að þeir sem eiga rétt á stuðningnum verði af honum.