154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[15:15]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Við höfum nú áður rætt nákvæmlega þetta atriði varðandi auðlindaákvæði í stjórnarskrá hér, ég og hv. þingmaður, og mikilvægi þess að það ákvæði liggi fyrir, ekki bara tengt því sem hv. þingmaður nefnir hér heldur ekki síður það sem lýtur að vatnsafli, jarðvarma, lifandi auðlindum o.s.frv.

Varðandi síðan frumvarp það sem hv. þingmaður vísar til og er kennt við lagareldi þá kom það til, eins og hv. þingmaður man, vegna þess að málaflokkurinn allur þurfti á raunverulegri og almennilegri, víðtækri uppfærslu að halda sem var fyrst gerð með því að gera úttekt á vegum Ríkisendurskoðunar að beiðni minni í ráðuneytinu og síðan Boston Consulting Group í framhaldinu. Niðurstaðan varð sú að leggja drög að ítarlegu frumvarpi sem fangar allt lagaumhverfið og skipti mjög miklu máli að mínu mati. Eins og hv. þingmanni er kunnugt fór ég sjálf í skyndilegt veikindaleyfi í janúar og þegar þar var komið sögu var frumvarpið í samráðsgátt um það ákvæði sem hv. þingmaður er sérstaklega að vísa til og snýst um tímabindingu eða ekki tímabindingu á leyfum. Þá hef ég verið sammála hæstv. núverandi matvælaráðherra um að það sé mikilvægt að ráðast í breytingar á því ákvæði með það fyrir augum að tímabinda heimildirnar en um leið að gæta sérstaklega að því að það verði ekki á kostnað náttúruverndar og umhverfishagsmuna.