154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni ræðuna og tek heils hugar undir með honum að við þurfum að standa vörð um íslenskuna. En mig langar sérstaklega að spyrja hv. þingmann út í orð hans um fræðsluaðila vegna þess að það sem mér finnst í rauninni endurspeglast í þessari aðgerðaáætlun er að stjórnvöld eru loksins farin að hlusta á fræðsluaðila og hér er verið að leggja til þau tól og tæki sem fræðsluaðilar hafa kallað eftir. Mér fannst hv. þingmaður, ég veit ekki hvort hann ætlaði sér það, aðeins snúa ábyrgðinni á haus. Mér finnst með þessari aðgerðaáætlun stjórnvöld vera að axla sína ábyrgð, t.d. með því í fyrsta skipti að gera ráð fyrir því að fjármögnun námskeiðanna þurfi að tryggja það að kennararnir sem kenna fullorðnum íslensku geti stundað starfsþróun, geti sótt námskeið. Sú aðgerð sem meiri hlutinn er að leggja til er að það verði meira sett í þekkingaröflun til þess að skapa tól og tæki. Svo er það hins vegar Samevrópski tungumálaramminn, sem ég lagði í minni framsögu töluverða áherslu á, alger grundvöllur að því einmitt að það sé hægt að meta kunnáttu á sambærilegan hátt eftir námskeið og að það sé hægt að þróa þessi gæðaviðmið. Þessu hefur verið lengi kallað eftir og fræðsluaðilar í rauninni komnir langt með að koma tungumálarammanum (Forseti hringir.) í gagnið án þess að stjórnvöld hafi veitt því athygli fyrr en núna. Ég vil bara óska eftir viðbrögðum þingmannsins við þessu.