154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[15:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það fólst alls ekki nein gagnrýni í mínum orðum hér um þessa tillögu þegar kemur að fræðsluaðilum. Ég var einfaldlega að vekja athygli á því að þessir hlutir hafi ekki verið í nógu góðu lagi. Ég veit til þess að m.a. einn af þessum aðilum sem ég ræddi við, sem hefur verið fræðsluaðila til margra ára, kom sínum sjónarmiðum á framfæri í þessari vinnu þannig að það hefur skilað sér að einhverju leyti í þessa tillögu sem ég fagna.

Ég held að það sé mikilvægt að það sé svona ákveðið aðhald líka gagnvart fræðsluaðilum. Nú þekki ég það ekki, það getur vel verið að hv. þingmaður þekki það betur, hvort það sé einhvers konar eftirlit með þessu. Það eru fleiri en einn aðili og fleiri en tveir og mismunandi aðferðir sem er verið að beita í þessari kennslu sem skila misjöfnum árangri þannig að maður veltir því fyrir sér hver fylgist með þessu. Nú hef ég ekki kynnt mér það, sá það ekki í tillögunni, hvort það væri hugsað sérstaklega fyrir því að fylgst verði með þessu. Það er meira svona bara verið að bregðast við þessum athugasemdum sem hafa komið fram. Þetta er náttúrlega bara mjög fínn kafli hér sem fjallar um bætt gæði íslenskukennslu og ég er alls ekki að gagnrýna það í tillögunni, bara svo það komi skýrt fram. En það er spurning líka um þessi stöðupróf sem ég nefndi hér áðan, að samræma þessi fræðslumarkmið, að við lok hvers áfanga séu ákveðin stöðupróf og menn sýni fram á árangur og að kennslan beri árangur. Það er það sem ég hef svolitlar áhyggjur af að sé kannski ekki verið að fylgjast nógu vel með. En öll stefnum við að sama markmiði og enn og aftur segi ég það bara að þessi tillaga er mjög svo af hinu góða.