154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[15:46]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mér ljúft og skylt að deila því með þingheimi að við í Samfylkingunni styðjum þetta góða mál. Eins og með mörg önnur metnaðarfull verkefni sem lúta að mikilvægum framþróunarverkefnum fyrir íslenskt samfélag þá er hins vegar ekki alveg að sjá á nýlegri fjármálaáætlun að þetta að fái slíka fjármögnun sem aðgerðaáætlunin kallar á. Vísa ég bara til þeirra aðila sem þarna eru taldir upp. Gefur að skilja að þetta er ekki einungis spurning um mikla og nána samvinnu milli fulltrúa framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnarinnar og kjörinna fulltrúa heldur líka margra mismunandi aðila innan atvinnulífsins. Það verður bara önnur áskorun fyrir þessa ríkisstjórn og okkur í stjórnarandstöðunni að fylgjast náið með, þ.e. hvort þessari aðgerðaáætlun verði fylgt eftir og þá hvernig, verði hún samþykkt hér í þingsal. En skulum ekki vera of svartsýn. Einhvers staðar þarf að byrja.

Ég ætla að nota tækifærið og tala um stöðu íslenskukunnáttu og íslenskukennslu barna í grunnskólum landsins og nefna í því sambandi t.d. 3. lið aðgerðaáætlunarinnar, Samevrópska tungumálarammann, það má líka nefna 13. lið í tengslum við samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu við börn sem hafa annað móðurmál en íslensku, en það verður að segjast eins og er að ríkisstjórnin á eftir að útkljá sín í milli hvernig fjárframlögum til höfuðborgarinnar verður endanlega háttað. Mér finnst æskilegt og ég get eiginlega ekki sleppt því að koma hérna upp og hvetja ríkisstjórnina, þá sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra en líka hæstv. iðnaðarráðherra, til þess að koma sér saman um hver verði örlög frumvarps um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga varðandi þetta. Við fórum aðeins yfir það í gær í sambandi við þetta mál í óundirbúnum fyrirspurnum að hæstv. innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, tilkynnti öllum sveitarstjórnum landsins að hann myndi ekki fylgja þessu frumvarpi eftir — þetta var 9. janúar sl. — í ljósi þess að hér væri dómsmál í gangi eftir sigur Reykjavíkurborgar í héraðsdómi fyrir áramót og var með einhvers konar yfirlýsingar um að ekki væri hægt að ná sátt um þessi mál fyrr en dómstólar hefðu komist að niðurstöðu, fyrr yrði ekki hægt að útfæra þetta hreinlega í lögum. Ég ætla að lýsa mig djúpstætt ósammála fyrrverandi hæstv. innviðaráðherra, núverandi hæstv. fjármálaráðherra, og kalla ég eftir einhvers konar sýn í þessu máli. Ég veit að Framsóknarflokkurinn hefur yfir að búa bæði tveimur ágætum ráðherrum; ráðherrum mennta og barnamála og jafnframt fjármála, samhliða því að eiga auðvitað í sínum ranni borgarstjóra fjölmennasta sveitarfélagsins. Hvet ég þau enn og aftur til að eiga saman djúpstætt og ígrundað samtal um þessi mál, ekki síst í ljósi þessarar mikilvægu fjármálaaðgerðaáætlunar sem hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra leggur hér fram. Hún kemur reyndar líka úr hinum ágæta Framsóknarflokki. Mér finnst það skipta máli fyrst við erum á annað borð að ræða um samhæfingu mismunandi aðila. Náist sátt um þetta þá væri það í samræmi við þá forgangsröðun sem ég tel að sé ætlunin að sýna hér í þessari aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu. Grunnskólanemendur landsins þurfa að fá fókus og ekki síst þau sem eru að læra hér málið í skólanum en tala annað mál heima hjá sér.

Það eru forréttindi að eiga heimili þar sem íslenska er töluð sem aðaltungumál. Rannsóknir sýna að þau börn sem ekki eiga í miklum samtölum heima fyrir og heyra færri orð heima hjá sér eru sennilega líka ólíklegri til að grípa orðaforða á nýju tungumáli. Þeir þekkja það sem hafa búið erlendis að samtölin heima fyrir í erlendu landi á móðurmálinu eru oft ekki kannski jafn rík af mismunandi orðum og hjá þeim sem búa hér í íslensku samfélagi og við notum heima hjá okkur í okkar heimalandi. Þetta er auðvitað bara mikil stúdía og verkefni sem þurfa einhvern veginn að fara í meiri fókus í tengslum við áskoranir sem leiða af því að vilja búa til metnaðarfullt fjölmenningarsamfélag, sem er markmið sem við eigum að stefna að.

Ég ætla líka í þessu sambandi að nefna sérstaklega 14. lið, um eflingu íslenskuhæfni starfsfólks í leik- og grunnskólum og frístundastarfi. Þetta upplegg er mjög til bóta, sérstaklega fyrir þau sem hafa ekki útgefið leyfisbréf en starfa á þessum vettvangi, þau eiga að geta gengið að því vísu að fá stuðning við það að læra tungumálið sem best. Ég hef heyrt það í samtölum við marga forstöðumenn menntastofnana, hvort sem það eru leikskólar — það eru sérstaklega leikskólar — sem njóta þess að margir vilja gefa sig að þessu starfi sem ekki hafa nauðsynlega íslenskukunnáttu. Og þrátt fyrir að þarna séu oft á tíðum mjög metnaðarfullir og hæfir einstaklingar sem sækja um starf þá verður það bara að segjast að leikskólinn er kannski ekki sá vinnustaður þar sem þú ætlar þér að læra málið vegna þess að þar erum við auðvitað að tala um skjólstæðinga, börn sem eiga rétt á því að vera í umhverfi þar sem íslenska er töluð, þar sem vönduð íslenska er töluð. Hér er ég nú ekki að mæla því mót að hér starfi fólk af erlendum uppruna í leikskólunum, fjarri því. Ég hef bara sjálf persónulega reynslu af því í gegnum leikskólann sem börnin mín voru á að þar var starfandi fólk af erlendum uppruna sem ég gæti ekki lofað meira og ekki síst vegna bara frábærrar íslenskukunnáttu. En eins og ég segi, þetta eru börnin okkar sem eru þarna oft á tíðum á sínu mikilvægasta máltökuskeiði. Það verður hins vegar líka að koma því í kring og tryggja að þeir kennarar sem sannarlega hafa leyfisbréf eigi líka kost á því að njóta símenntunar á sviði íslensku. Það er full ástæða til að nefna það, eins og ég segi, í þessu samhengi, að e.t.v. þarf líka að tryggja aðgengi allra útskrifaðra kennara í námi sínu, handhafa leyfisbréfa, að hluti af kennaranámi feli í sér öflugri íslenskukennslu per se. Þetta segi ég og vísa hér í gestakomur til okkar í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem komið var inn á að það væri í rauninni hægt að útskrifast sem kennari án þess að hafa fengið nægilega eða bara einhverja formlega íslenskukennslu í náminu. Ég er ekki beinlínis að leggja það til sem breytingartillögu, fjarri því, en mér finnst þess virði a.m.k. að ræða það, en þessi 14. liður er bara fyrirtaks fyrsta skref.

Ég vil þakka hv. framsögumanni, Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir að leiða góða vinnu í nefndinni í þessu mikilvæga máli. Það hefur verið virkilega gagnlegt að hlusta á alla gesti sem komið hafa til okkar varðandi það. Ég hef trú á því að staða íslenskunnar muni styrkjast verulega ef við náum að koma markmiðum aðgerðaáætlunar til framkvæmda. Þið munuð ekki finna andstöðu við þau frá þingflokki Samfylkingarinnar en þegar þessi markmið eru sett fram með þeim hætti sem við sjáum hér í dag verðum við samt sem áður að finna þeim fjárhagslegan farveg með öðrum hætti en með einstökum ummerkjum hér og þar í fjármálaáætlun. Ég hefði fagnað því að við hefðum nánari útlistun á því í greinargerð hvar við munum sjá fyrstu skrefin vakna til lífsins.

Ég ætla þó ekki að dæma áætlunina úr leik, það er bara of mikið í veði. Íslenskan er algjör lykill að samfélaginu okkar. Góð tungumálakunnátta brýtur niður ósýnilega veggi og stéttaskiptingu á milli hópa sem hætta er á að myndist þegar þegar við sofnum á verðinum gagnvart misskiptingunni.

Málið er ekki í eðli sínu gott, það er bara ákaflega brýnt. Ég set það fram hér að samþykki mitt er sett fram með þeim fyrirvara að verkefnin verði fjármögnuð og farsælt samstarf fari fram á milli hlutaðeigandi aðila sem eru kallaðir til ábyrgðar í henni.

Við skulum ekki vanmeta þetta mikilvæga verkefni, alls ekki, en hrósum samt ekki sigri fyrr en við sjáum verkefnið komast til framkvæmda vegna þess að það er ábyrgðarhluti að setja svona fram. Eins og stendur þá er þetta metnaðarfullur markmiðalisti en þó bara það. Ég bind miklar vonir við að ríkisstjórnin geri þetta mál að því máli þar sem samstarfs- og samhæfingarvilji hennar nær að blómstra sem aldrei fyrr. Það er mikilvægt að það gerist því að annars er hætt við að undirrituð og mögulega fleiri nefni þessar aðgerðir í sambandi við öll mál sem lúta að mikilvægi félagslegrar samþættingar, inngildingar nýrra Íslendinga og bara skyldna okkar gagnvart þeim sem setjast hér að eða bara þeim sem fæðast hér á Landspítalanum með lögheimili í Grafarvogi og ættartré sem nær aftur til þjóðveldisaldar. Við eigum öll hagsmuni af því að þetta nái að fara með þeim hætti sem nefnt er í aðgerðaáætluninni en ég leyfi mér að vera — ja, ég ætla bara að segja það að ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn um að þverpólitískur samstarfsvilji náist um markmiðin en tíminn verður að leiða það í ljós.