154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

fjáraukalög 2024.

1078. mál
[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni þá eru tekjur að aukast. Þær munu sjálfsagt aukast meira eins og við höfum séð reyndar, við höfum séð enn þá stærri breytur á síðastliðnum árum þar sem tekjuáætlun hefur ekki verið nægjanlega góð eða við skulum segja að ávinningurinn hafi verið umtalsvert meiri í samfélaginu þar sem frumjöfnuður jókst um 100 milljarða tvö ár í röð. Hér eru tekjur að aukast um sirka 10 milljarða. Það er líka búist við því að lækkandi vaxtakostnaður skili 2–3 milljörðum til viðbótar til aðhalds. Við munum því sjá að þrátt fyrir þessar breytingar á útgjöldum upp á tæpa 13 milljarða þá verður engin breyting á heildarniðurstöðu fjárlaga, sem er mjög gott og er í anda þess sem við í ríkisstjórninni höfum lagt áherslu á, að halda hér jöfnuði, að reyna að ná þessari mjúku lendingu með því annars vegar að leyfa hagkerfinu að vaxa hægt og rólega sem það mun gera á næstu árum en um leið að hafa aðhald á útgjöldunum. Þess vegna er það bara mjög gott að geta gert þetta með þessum tiltekna hætti hvað varðar fjárauka þrjú. Við höfum verið að nota almenna varasjóðinn í þau útgjöld sem hafa komið til vegna jarðhræringanna í Grindavík. Það er hins vegar alrangt að það hafi verið stefnuleysi sem varð til þess að við kæmum að þessu, ég kom inn á það í máli mínu að við hefðum haft ákveðnar skoðanir um að við myndum þurfa að koma að kjarasamningum að því gefnu að þeir yrðu til langs tíma, til fjögurra ára. Það tókst. Einstaka tekjur eru auðvitað ekki eyrnamerktar til útgjalda, ekki arðgreiðslur Landsvirkjunar frekar en tekjuskattur lögaðila eða annað slíkt.