154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Þjóðarsjóður.

881. mál
[17:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem ég myndi gjarnan vilja fá er þessi almenna umræða í samfélaginu og það hefur sýnt sig að það er oft besta leiðin til að fá almenna umræðu eða jafnvel eina að taka hana hér í þessu púlti, þessum ræðustól samfélagsins, og fá þannig fram viðbrögð og senda mál út til umsagnar og fá þannig viðbrögð aftur í samfélaginu.

Við erum sannarlega býsna vel sett með Náttúruhamfaratryggingu Íslands sem og ofanflóðasjóð. Við lögðum af stað með hugsanlega þriðja fyrirbærið með því að taka gjöld fyrir varnargarðauppbyggingu sem væri þá einhvers konar forvarnasjóður. Samspil þessara þriggja verkefna til lengri tíma og þjóðarsjóðs sem væri einhvers konar varúðarsjóður finnst mér þurfa aðeins að leggjast betur yfir og eins þá samspil þjóðarsjóðs sem einhvers konar stöðugleikasjóðs, sem einhvers sparnaðarsjóðs og samspil hans við þá forvarnasjóðinn. Það er þess vegna sem mér finnst mikilvægt að fá þessa umræðu (Forseti hringir.) en líka mikilvægt að taka málið aftur til okkar í ráðuneytinu og fara betur yfir.