154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Þjóðarsjóður.

881. mál
[17:26]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Þetta er mikilvægt mál og ég vil taka undir þá spurningu sem kom hér í andsvörum um 4. gr., rekstur og umsýslu: „Stjórn sjóðsins skal með samningi fela þar til bærum aðilum, hverjum um sig, vörslu sjóðsins, áhættustýringu og eignastýringu.“

Þá vek ég athygli á að nafnið er þjóðarsjóðurinn og þeir sem eru í stjórn eiga fyrst og fremst að vera af fjármálamarkaði og með þekkingu á hagfræði. Ég get ekki séð annað en að samningar við þá sem fara með vörslu sjóðsins og eignastýringu — það sé rétt að hafa lögfræðing alla vega í stjórninni. Sjóðurinn verður þar, það er ekki hjá ríkinu og ég tel rétt að þetta yrði hjá Seðlabankanum sem er t.d. með gjaldeyrisforðann og þá fyrirmynd frá Noregi.

Hér er um áfallasjóð að ræða, virðist vera. Þetta er ekki sparnaðarsjóður, þetta er ekki stöðugleikasjóður en þetta er svokallaður varúðarsjóður til að mæta áföllum í samfélaginu, t.d. vegna náttúruhamfara og þá er mikilvægt að hafa ríkisfjármálin í lagi eins og var fyrir hrun og svo núna í Covid þá stóðum við ágætlega. Er ekki mikilvægt að við horfum fyrst, til að geta brugðist við áföllum í samfélaginu, á skuldastöðu ríkissjóðs, að það sé mikilvægt að við náum skuldum okkar niður á svipað ról og er í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, sem er um 30%, og við ættum helst að fara að læra af því að við erum svo lítil, að það sé eiginlega fyrsta verkefni okkar áður en við förum að huga að sjóði sem ríkið sjálft stýrir, vonandi þá Seðlabankinn, svo við getum mætt þessum áföllum? En er verið að hugsa þetta kannski til framtíðar sem stöðugleikasjóð þar sem við ætlum að reyna að komast út úr auðlindahagkerfinu?

Eitt atriði sem ég hef mikinn áhuga á er fjárfestingarstefna. Það er ekki tekið fram í 8. gr. að þessi sjóður eigi að fjárfesta erlendis. (Forseti hringir.) Það finnst mér mjög sérstakt og ég hefði haldið að svona sjóður, auðlindasjóður, ætti að fjárfesta erlendis til að draga úr þenslu í samfélaginu. Það væri gott að heyra álit hæstv. fjármálaráðherra á því varðandi fjárfestingarstefnuna og jafnvel hvort þingið ætti ekki að samþykkja þessa fjárfestingarstefnu.