154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Þjóðarsjóður.

881. mál
[17:34]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Mig langaði að koma hér upp og velta upp nokkrum atriðum. Kannski sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að málið væri enn þá í rauninni á vinnslustigi og ekki ætlunin að klára það á þessum þingvetri þá fyndist mér ágætisbragur á því að ákveðin álitaefni yrðu tekin upp.

Fyrir það fyrsta langar mig að segja að við í Samfylkingunni erum í grunnatriðum hlynnt því að það verði settur á fót einhvers konar sjóður. Það má síðan alveg rökræða með hvaða hætti er ráðstafað úr honum. Það er farið yfir það í greinargerð þessa frumvarps að vissulega væri hægt að sleppa því að vera með sjóð og reka bara ríkið með ákveðnum hætti til að eiga fyrir svona útgjöldum. Það liggur auðvitað alveg fyrir að fyrirkomulag á þessum sjóði er að mörgu leyti með allt öðrum hætti, held ég, en umræðan hefur oft verið um hann. Það er mjög skýrt í þessu frumvarpi að þetta er varúðarsjóður, þetta er ekki hagstjórnarsjóður eða í rauninni náttúruauðlindasjóður eins og má sjá víða og ég held að það skipti rosalega miklu máli upp á umræðuna að við vitum um hvers konar sjóð við erum að tala vegna þess að ákveðnir punktar og gagnrýni og átakalínur eru auðvitað mjög misjafnar eftir því hvers konar sjóð við erum að tala um.

Það sem mig langaði að varpa hér fram í umræðuna er að ég held að það sé mjög mikilvægt, sérstaklega vegna þess að þennan sjóð á fyrst og fremst að fjármagna með orkuauðlindum okkar og þá einna helst arðgreiðslum úr Landsvirkjun — ég get tekið undir það sem hv. þm. Eyjólfur Ármannsson sagði hérna áðan, mér finnst bara gott og gilt að ræða hvort það eigi að fara hér inn aðrar auðlindir en ef við einbeitum okkur fyrst og fremst að orkuauðlindunum þá þarf að ræða t.d. arðgreiðslur úr Landsvirkjun í samhengi við aðra gjaldtöku.

Hér hefur verið rætt um framleiðsluskatta. Samfylkingin er fylgjandi orkusköttum. Það hefur komið til umræðu, mikilvægi þess að vera með einhvers konar gjaldtöku á orkunni sem myndi ná til fleiri aðila en Landsvirkjunar. Við verðum að horfast í augu við það að Landsvirkjun er ekki eini aðilinn sem virkjar á Íslandi og við getum ekki alltaf gengið að því sem vísu að allur arðurinn af orkuauðlindinni muni þannig renna til okkar í formi arðgreiðslna. Þess vegna hefur Samfylkingin verið á þeirri skoðun að það þurfi að setja heildstæðara kerfi fyrir orkuauðlindir okkar og mögulega fara í almenna gjaldtöku. Það myndi draga að einhverju leyti úr arðgreiðslugetu Landsvirkjunar en á móti koma þá skatttekjur frá Landsvirkjun beint til ríkisins en þýddi þá að önnur orkufyrirtæki sem væru ekki í eigu hins opinbera myndu líka greiða orkuskatt. Síðan hefur verið til umræðu að afkoman af slíkum skattstofni myndi að hluta til renna til nærsamfélaganna, mögulega til að höggva á hnúta þegar kemur að ákveðnum framkvæmdum, líka fyrir þá sem þurfa að lifa við ákveðin áhrif af mannvirkjum sem tengjast orkuframleiðslu. Ég held að ef það er vilji bæði hjá ríkisstjórninni og líka hjá þinginu til þess að taka þetta fastari tökum, orkumálin, þá þarf að hafa það í huga að breytt gjaldtaka í orkumálum gæti haft áhrif á þennan stofn sem á að sækja arðgreiðslur í.

Ég hjó líka eftir því í þessu frumvarpi að það er lögð náttúrlega mikil áhersla einmitt á að það sé verið að nota þennan arð sem kemur frá orkufyrirtækjunum, í þessu tilviki Landsvirkjun náttúrlega, fyrst og fremst í langtímafjármögnun á uppbyggingu á innviðum í tengslum við náttúruhamfarir sem dæmi og leggja sérstaka áherslu á, sérstaklega í umræðunni áðan um fjáraukann og kjarasamninga og þess háttar, að í frumvarpinu, með leyfi forseta, stendur í 6. gr.:

„Verði ríkissjóður fyrir verulegum fjárhagslegum skakkaföllum af völdum ófyrirséðs áfalls sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir eða sem stafa af því að stjórnvöld hafa óhjákvæmilega þurft að gera ráðstafanir til að bregðast við slíku áfalli er heimilt að veita ríkissjóði fé úr Þjóðarsjóði …“

Forseti. Hér sjáum við að það er verið að setja mjög skýrar línur fyrir því í rauninni að það sé verið að nýta arðgreiðslur frá Landsvirkjun. Vissulega er það svo að í upphafi þegar verið er að byggja upp sjóðinn þá er hugmyndin sú að það séu ekki allar arðgreiðslurnar að fara í sjóðinn. En ég held að það væri mjög gott ef þetta er markmiðið að því væri þá fylgt í dag.

Mig langar líka einmitt að benda á að í þessu samhengi er lögð áhersla á það í þessu frumvarpi — á bls. 10 í greinargerðinni er talað sérstaklega um, með leyfi forseta, að „… hvorki verður dregið á sjóðinn til að fjármagna aukinn ríkisrekstur, tilfærslur til heimila eða framkvæmdir í þeim tilgangi að vega á móti efnahagslægð …“

Þannig að enn og aftur, hér er verið að reyna að beina þessum arðgreiðslum frá Landsvirkjun ekki í tilfærslur til heimila. En gott og vel.

Ef við horfum aðeins inn í framtíðina og hvers væri líka hægt að horfa til þá rak ég augun í það að í upphafi þessarar greinargerðar er rætt um að þær breytingar sem urðu á þessu frumvarpi frá því að það var síðast lagt fram fólu m.a. í sér, með leyfi forseta:

„Í fjórða lagi fellur niður ákvæði til bráðabirgða sem var í frumvarpinu á 150. þingi um sérstök tímabundin framlög til uppbyggingar á hjúkrunarrýmum og til nýsköpunar á árunum 2020–2024 þar sem það tímabil verður liðið og búið er að fjármagna þau verkefni á annan hátt.“

Forseti. Ég fagna því auðvitað að þetta falli brott en mér finnst mikilvægt að það komi fram í þingsal að varla getur ástæða fyrir að þetta fellur niður verið sú að það er búið að fjármagna þetta heldur hlýtur að vera grundvallarprinsipp þegar kemur að þjóðarsjóðnum að það sé ekki verið að nota hann í eitthvað annað en þá í þau skilgreindu verkefni lögum samkvæmt sem þau eiga að snúa að. Það er ekki hægt að byrja að stofna til sjóðs og ætla strax að taka úr honum fyrir einhver verkefni. Það er auðvitað smá hjákátlegt og var náttúrlega á sínum tíma. Ef það er pólitískur vilji til að fjármagna uppbyggingu á hjúkrunarrýmum þá er það fjármagn bara eitthvað sem þarf að finna á öðrum stað ef það er ekki vilji til að nýta arðgreiðslur Landsvirkjunar í það. Ég ætla rétt að vona að það verði bara prinsippatriði við mótun næsta frumvarps að það sé ekki strax verið að setja inn einhver ákvæði til bráðabirgða fyrir pólitíska forgangsröðun ríkisstjórnar hverju sinni af því að þá er þetta auðvitað bara fallið um sig sjálft.

Svo langar mig að lokum að benda á eitt sem er að mínu mati kannski mikilvægasti þátturinn og stærsta athugasemdin sem ég geri við frumvarpið eins og það stendur núna. Það er áherslan á bókhaldsskuldir ríkissjóðs fremur en innviðaskuldir í landinu, vegna þess að það er settur sá fyrirvari á þessar arðgreiðslur sem myndu annars fara inn í sjóðinn að þær eru ekki nýttar inn í þennan sjóð, sem er í rauninni ósnertanlegur þegar þær eru komnar þangað inn, fyrr en skuldahlutfallið hjá ríkinu er komið niður á ákveðið stig. Við vitum að staða innviða í landinu er mjög slæm. Ég hefði viljað sjá að það hefði verið gert einhvers konar mat á innviðaskuld og áhrifum hennar á stöðu kerfisins í heild sinni og að það yrði tekið inn í myndina varðandi hvenær eitthvað á fara inn í þjóðarsjóð og ekki, vegna þess að það er munur á því að fjármagna tilfærslur, rekstur, þess háttar útgjöld eða fjárfestingar í innviðum til lengri tíma.

Vissulega er það þannig að ef svona sjóður á að vera stöðugleikasjóður, ekki bara varúðarsjóður, þarf fjárfesting í innviðum að taka mið af stöðu hagkerfisins og getu til innviðaframkvæmda. Að því leyti styð ég það 100% að það séu ekki bara teknar allar arðgreiðslur út úr Landsvirkjun og settar í innviðaframkvæmdir óháð stöðu hagkerfisins. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli og þarf að hafa í huga. En ef það er geta í hagkerfinu til að taka við þessu þá fyndist mér eðlilegra að það væri líka tekið mið af stöðu innviða áður en þetta yrði sett til hliðar í sjóð og væri ósnertanlegt á sama tíma og við erum með þessa innviðaskuld.

Mig langar að vitna til þess sem segir hérna í greinargerðinni þar sem, með leyfi forseta, stendur:

„Með stofnun Þjóðarsjóðs er því ætlunin að stuðla að stöðugleika í ríkisfjármálum og efnahagslegu öryggi þjóðarinnar.“

Þannig að þrátt fyrir að það sé varúðarsjóður þá vill fólk sjá hér stöðugleika. Þarna þurfum við að velta fyrir okkur áhrifum uppsafnaðs viðhalds og innviðaskuldar á þennan stöðugleika.

Mig langar líka að vitna í greinargerðina þar sem er talað um, eins og ég minntist á áður, að það verði, með leyfi forseta, hvorki „dregið á sjóðinn til að fjármagna aukinn ríkisrekstur, tilfærslur til heimila eða framkvæmdir í þeim tilgangi að vega á móti efnahagslægð …“

Ég velti því bara fyrir mér að í þeirri stöðu sem upp er komin í íslensku samfélagi varðandi innviðaskuld og þá uppsöfnuðu innviðaskuld sem er til staðar, og til að mynda hafa Samtök iðnaðarins metið það á 5% af landsframleiðslu, hvenær er tíminn til að fara í þetta átak, að nota ákveðna sjóði og svigrúm til að laga innviðina? Annaðhvort hefur verið of mikil þensla til að gera það eða það hefur verið of mikil lægð í hagkerfinu og því hafa fylgt háir vextir eða léleg framkvæmdageta, þannig að við erum komin á þann stað, forseti, að það virðist aldrei vera tími til að vinna upp þessa innviðaskuld. Ég legg það til hér inn í vinnuna, og vona að nefndin taki það til sín, að þetta verði tekið inn í samhengið.

Að lokum langar mig að benda á tvo aðra þætti. Það eru t.d. færð mjög sterk rök fyrir því af hverju það á ekki að nýta þjóðarsjóð sem þennan til að bregðast við til að mynda öldrun þjóðarinnar eða vandamálum sem snúa að lífeyrisréttindum, sem er auðvitað vandi sem birtist víða í kringum okkur og það er ítarleg útlistun á þessu í kafla 2.4. í greinargerðinni. Síðan má auðvitað færa rök fyrir því að þetta séu kannski of bjartsýnar forsendur og það sé í rauninni ekki búið að fjármagna lífeyrisskuldbindingar með jafn góðum hætti og hér kemur fram. En það breytir því ekki að hér er búið að fara í greiningu á því að þessi samfélagslegi þáttur, lífeyriskostnaður, lífeyrisréttindi og öldrun þjóðar — að ríkið haldi það vel utan um hann, að þessi sjóður þurfi ekki að snerta á honum.

Þegar kemur að endurnýjanlegum auðlindum er sagt: Af því þetta er ekki olía sem við erum að taka arðinn af þá þurfum við ekki að horfa á þetta út frá því sjónarmiði. En það er engin greining gerð á stöðu innviða og í raun er ekkert plan sem má finna þessu tengt, alveg eins og með lífeyrisréttindin, um hvert planið er í innviðamálum og innviðaskuldamálum. Og þetta er kafli sem mér finnst bara alveg vanta hér inn í. Hver er rökfærslan fyrir því að taka það ekki inn í myndina? Ef það þykir ástæða til að hafa áhyggjur af lífeyrisréttindum og öldrun þjóðar, af hverju er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af innviðaskuldum?

Að lokum, forseti, vil ég setja þetta í samhengi við það sem segir hér líka í greinargerð frumvarpsins, í þriðja kafla, þar sem er tekið á meginefnum frumvarpsins, með leyfi forseta, að:

„Sjóðurinn hafi þann tilgang að gera ríkinu betur kleift að takast á við skakkaföll sem kunna að hljótast af t.d. náttúruhamförum, umhverfisslysum, vistkerfisbreytingum, farsóttum eða öðrum áföllum sem valda stórfelldu tjóni og milda þar með efnahagslegt áfall sem þjóðin yrði fyrir af völdum slíkra atburða.“

Ég velti því bara fyrir mér hvort slæmt ástand innviða gæti verið risastór breyta í þessu. Slæmt ástand innviða gerir okkur illa kleift að takast á við þessar hamfarir sem við erum að reyna að koma í veg fyrir. Það vantar algerlega þennan innviðaskuldarvinkil inn í þetta frumvarp. Mig grunar að það sé alveg vilji til að skoða það í ráðuneytinu miðað við hvernig umræðan hefur oft verið um innviði og ég hvet nefndina líka bara til að skoða það í sinni vinnslu áður en það fer þá aftur í ráðuneytið.