154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

921. mál
[18:12]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra sína ágætu yfirferð. Þetta er stutt og snarpt frumvarp sem er í sjálfu sér ekki með mörgum greinum. Ég skil innihald þess þannig, hafandi hlustað á hæstv. ráðherra og lesið frumvarpið, að þetta miði nú helst að því að reyna að einfalda og skýra regluverkið, sér í lagi í tilfelli nýsköpunarfyrirtækja eða aðila sem varða nýsköpun. Gott og vel, við höfum séð ofan í sambærileg frumvörp hér áður og afgreitt þau. Hins vegar þegar við erum að gera svona smávægilegar breytingar sem skila kannski þegar upp er staðið tilætluðum árangri og skipta máli í samhengi skattkerfisins í heild sinni þá tel ég nú að mikilvægt sé að rýna allar svona breytingar í heildarsamhengi hlutanna, svo það sé sagt, og kannski ekki alltaf auðvelt að gera það enda kerfin umfangsmikil og margir bálkar þar undir. En það sem mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra, ef hann hefði það í hausnum — af því að þegar maður hugsar um nýsköpunarfyrirtæki sér maður auðvitað eitthvert ákveðið form fyrir sér — er hvort ráðherra þekki dæmi þess hvaða önnur fyrirtæki sem ekki endilega myndu flokkast undir nýsköpun, sem þessar breytingar, nái þær fram að ganga, myndu geta átt við. Gæti hæstv. ráðherra tekið dæmi af því fyrir mig?