154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

aðför og nauðungarsala.

926. mál
[18:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga breytingu á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu. Á undanförnum misserum hefur dómsmálaráðuneytið haft til athugunar að gera breytingar á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu með það að markmiði að heimila notkun stafrænna og rafrænna lausna við meðferð mála sem rekin eru á grundvelli laganna, hvort tveggja hjá sýslumönnum og dómstólum. Málsmeðferð á grundvelli laganna er í meginatriðum óbreytt frá gildistöku þeirra 1. júlí 1992 þegar framkvæmdarvald og dómsvald í héraði voru aðskilin. Bætt tækni og lagabreytingar á öðrum réttarsviðum skapa á hinn bóginn forsendur fyrir því að meðferð mála þurfi ekki að vera eins háð pappír og verið hefur, auk þess að ekki er talin þörf á að mætt sé í eigin persónu við meðferð mála í eins ríkum mæli og verið hefur.

Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu er að réttarvörslukerfið verði einfaldara, notendavænna og að málsmeðferð verði greiðari án þess að gæðum og réttaröryggi verði fórnað. Ætlunin er að bæta aðgengi að meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum og einfalda samskipti, auka skilvirkni og hagkvæmni í starfsemi þeirra sem vinna eftir löggjöfinni. Þá er breytingunum ætlað að auka gegnsæi og stuðla að nýtingu þeirra tæknilegu innviða sem þegar eru í mótun á öðrum sviðum, ásamt því að hafa jákvæð umhverfisáhrif með því að skapa forsendur fyrir að draga úr ferðalögum og notkun pappírs. Einnig er frumvarpinu ætlað að styðja við þinglýsingalög, lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti og lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Með breytingunum er þannig ætlunin að ryðja úr vegi hindrunum í gildandi löggjöf.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi: Lagt er til að fest verði í lög um aðför og lög um nauðungarsölu almennt ákvæði sem taki af öll tvímæli um að stafræn og rafræn málsmeðferð sé jafngild því að hún væri viðhöfð á pappír. Sömuleiðis er horfið frá því að tiltaka í lögum fjölda eintaka málsgagna og undirritun þeirra með eigin hendi. Þá eru lagðar til orðalagsbreytingar sem betur þykja lýsa tæknilega hlutlausri málsmeðferð.

Enn fremur er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að birta gögn og tilkynningar sem stafa frá sýslumanni og dómara í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda á vefnum Island.is. Lagt er til að tilkynningar dómstóla samkvæmt lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu teljist réttilega hafa farið fram þegar gerðarþoli hefur staðfest móttöku í hinu stafræna pósthólfi. Sami háttur verði hafður á við málsmeðferð sýslumanna samkvæmt lögum um nauðungarsölu, en lagt er til að birtingar sýslumanna samkvæmt lögum um aðför teljist réttilega hafa farið fram þegar gagn eða tilkynning er gerð aðgengileg málsaðila í stafrænu pósthólfi, sbr. meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

Meginástæður þess að í sumum tilvikum er gerður strangari áskilnaður um birtingu, eru þau réttindi sem að baki búa, og möguleiki þess sem telur ranglega hafa verið farið með réttindi sín til þess að rétta hlut sinn með endurupptöku máls.

Jafnframt er með frumvarpinu lagt til að festa í sessi í tiltekin ákvæði laga um aðför og lög um nauðungarsölu um að sýslumönnum verið heimilt að leyfa málsaðilum og lögmönnum að mæta í gegnum fjarfundabúnað við rekstur mála. Að þessu leyti hefur verið höfð hliðsjón af bráðabirgðaheimildum, sem með lögum nr. 32/2020 var bætt við lög um meðferð einkamála og lög um meðferð sakamála, þar sem lögreglu og dómstólum var heimilað að beita rafrænum lausnum og fjarfundabúnaði í auknum mæli við rannsókn og meðferð mála fyrir dómi. Þær heimildir hafa reynst vel og voru framlengdar í þrígang. Með frumvarpi sem lagt var fram nú á yfirstandandi löggjafarþingi er lagt til að þær heimildir verði gerðar varanlegar í lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála.

Loks er með frumvarpinu lagt til að sýslumanni verði að ströngum skilyrðum uppfylltum heimilt að boða málsaðila ekki til annars vegar fyrirtöku við meðferð aðfararbeiðni sem forsendur eru fyrir að ljúka með árangurslausu fjárnámi, og hins vegar við fyrstu fyrirtöku nauðungarsölubeiðni. Til algjörra undantekninga heyrir að mætt sé af hálfu gerðarþola við þessar fyrirtökur og því má ætla að nokkur ávinningur geti orðið af því fyrir hlutaðeigandi að einfalda málsmeðferð að þessu leyti og fækka fyrirtökum mála, að því gættu að við það verði ekki gengið á rétt gerðarþola. Í báðum tilvikum er það skilyrði að málatilbúnaður gerðarbeiðanda gefi sýslumanni tilefni til þeirrar meðferðar, og að gerðarþoli hafi ekki látið mál sig varða í kjölfar þess að honum hefur verið birt áskorun þess efnis að gættri ýtarlegri leiðbeiningarskyldu. Að öðrum kosti fer um mál eftir hefðbundnum reglum laga.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði frumvarpsins og meginmarkmiðs þess, en að öðru leyti vísast til greinargerðar frumvarpsins og skýringa við einstök ákvæði þess. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umræðu.