154. löggjafarþing — 109. fundur,  8. maí 2024.

staða ríkisfjármála.

[15:08]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Hér virðist hæstv. forsætisráðherra vilja stinga höfðinu í sandinn hvað varðar ójafnvægi í hagkerfinu. Hann vitnar hér til spennu, og hvað er það sem m.a. skapar spennu í hagkerfinu í dag? Hann vitnar hér til að mynda til fjármálaráðs. Hverjir eru stærstu gagnrýnipunktarnir hjá fjármálaráði? Þeir eru að allt aðhald sem er í fjármálaáætlun á næstu árum er gjörsamlega óútfært. Þessi ríkisstjórn treystir sér ekki einu sinni til að standa með eigin stefnu og segja hvar hún vill beita aðhaldi. Það er líka talað um að eignasala, einskiptiseignasala sem dregur úr tekjumöguleikum ríkissjóðs fram á veginn, sé aðalástæðan fyrir því að afkoman sé sú sem hún er. Og hvað er síðan gert til að fjármagna umrædda kjarasamninga? Það er farið í vasa Landsvirkjunar til að sækja 10 milljarða aukaarðgreiðslu, leysa þar bundið fé úr læðingi til að fjármagna kjarasamninga. Það er enginn að gera lítið úr því að skuldastaðan sé góð. Það er enginn að gera lítið úr því að þessum kjarasamningum hafi verið lent en verðbólgan (Forseti hringir.) er til staðar, ójafnvægið er til staðar og afkoman er ekki góð. Hvað ætlar hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) að gera í ríkisfjármálum fram að næstu vaxtaákvörðun sem mun breyta þessu?