154. löggjafarþing — 109. fundur,  8. maí 2024.

staða ríkisfjármála.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði hérna rétt áðan að efnahagsmálin væru á hvolfi á Íslandi. Þetta er bara alrangt. Staðan í efnahagsmálum á Íslandi — þegar við horfum á mælikvarðana sem skipta máli, sem eru ráðstöfunartekjur heimilanna, skuldastaða atvinnustarfseminnar, hagvöxturinn, sköpun nýrra starfa, nýsköpun í landinu, skuldastaða ríkisins, horfurnar í ríkisfjármálum, á alla þessa helstu mælikvarða sem raunverulegu máli skipta, er staðan á Íslandi gríðarlega sterk og hefur líklega aldrei verið sterkari, gjaldeyrisforðinn aldrei stærri, jákvæð staða íslenska þjóðarbúsins í útlöndum aldrei meiri. Þannig að þetta er allt saman rangt sem hv. þingmaður heldur hér fram. Hv. þingmaður spyr: Hvað ætlum við að gera? Við ætlum að standa með þeirri stefnu sem gengur út á það að ná tökum á verðbólgunni svo að vextir geti lækkað. Það er gríðarlega krefjandi þegar spennan er eins og hún er, en hún er ekki öll vegna þess að við höfum ekki útfært í fjármálaáætlun hvað við ætlum að gera eða með hvaða hætti árið 2027. Það er bara rangt. Það sem við ætlum ekki að gera er að fara leið Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) sem boðar stóraukin útgjöld. Hv. þingmaður er að lýsa hér áhyggjum af útgjaldastiginu, en öll stefna Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) í hverjum málaflokkinum á eftir öðrum er um aukin útgjöld og hærri skatta.