154. löggjafarþing — 109. fundur,  8. maí 2024.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

772. mál
[15:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum hér að fara að greiða atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Nefndarálit um að samþykkja málið óbreytt eins og það kemur frá félags- og vinnumarkaðsráðherra var samþykkt, það var skrifað undir það af öllum í velferðarnefnd. Þetta er mál sem lætur ekki mikið yfir sér en mér finnst skipta máli vegna þess að það sem hér er verið að gera er að breyta lögum og veita reglugerðarheimild þannig að m.a. beri notandinn ekki kostnað af aðstoðarmanni, t.d. þegar á að fara á opinber söfn eða fara í sund. Þetta skiptir fatlað fólk sem þarf aðstoðarmanneskju gríðarlega miklu máli, eykur möguleika til þátttöku í samfélaginu og auðvitað mikið réttlætismál að hið opinbera komi að því að greiða fyrir aðstoðarmanninn en ekki hinn fatlaði einstaklingur sjálfur. Ég fagna því þessu frumvarpi.