154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

sumarlokun meðferðardeildar Stuðla.

[15:36]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum þá snúast stjórnmál að miklu leyti um forgangsröðun, til að mynda forgangsröðun fjármuna sem er í grunninn ekkert annað en spurningin um það hvernig við ætlum að verja peningum almennings. Í hvaða verkefni fara skattpeningarnir okkar? Flest viljum við taka utan um börn og ungmenni í vanda. Við tölum þannig í stjórnmálum en það reynir á þann vilja okkar þegar það þarf að forgangsraða. Börn og ungmenni sem þurfa mikinn stuðning vegna hegðunar- og fíknivanda og fjölskyldur þeirra hafa getað leitað til meðferðardeildar Stuðla. Þar eru biðlistar eins og víða annars staðar en þetta er þó úrræði sem er sérhæft og sérsniðið fyrir þennan viðkvæma hóp barna og ungmenna. Nú á að loka þessu mikilvæga úrræði í nokkrar vikur í sumar. Það liggur fyrir og ég fékk það staðfest þótt ekki sé það komið í fréttir. Í því birtist forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og í þessu tilviki birtist forgangsröðun hæstv. barnamálaráðherra. Hver verður afleiðingin af þessu? Jú, biðlistar lengjast, vandinn færist til í tíma. Álagið á kerfið eykst til lengri tíma litið og þetta skilar verri þjónustu til barna og ungmenna sem eiga í miklum vanda nú þegar. Börn og ungmenni líða fyrir og þjást.

Þetta er enn eitt dæmið um hvað fólk á öllum aldri sem glímir til að mynda við fíknivanda er hornreka í kerfinu okkar þrátt fyrir fögur orð. Það er einfaldlega ekki forgangsraðað nægilega vel í þágu þessa fólks og það er alveg sérlega blóðugt þegar börn og ungmenni eru undir. Við vitum öll að það þarf að fara betur með peninga almennings en ég held að það vilji ekki nokkur einasti maður skilgreina börn og ungmenni í miklum vanda og fjölskyldur þeirra sem hópinn sem á að skerða þjónustu við. Getur hæstv. ráðherra sagt okkur hvernig það samræmist hagsmunum barna og ungmenna sem þurfa mikinn stuðning, oft börn og ungmenni með hegðunar- og fíknivanda, að loka úrræði sem hjálpar þeim einna mest í nokkrar vikur í sumar? Og úr því að það lokar, hvert eiga börnin og fjölskyldur þeirra að leita?