154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

RÚV á TikTok og fréttaskýring um lóðamál olíufélaganna.

[15:43]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnir mínar til hæstv. menningar og viðskiptaráðherra í dag eru tvær, en Ríkisútvarpið virðist vera ofarlega í huga hv. þingmanna í dag. Í fyrsta lagi áttum við hæstv. ráðherra orðastað hér fyrr á árinu um aukin umsvif Ríkisútvarpsins, nánar tiltekið um innrás RÚV á hlaðvarpsmiðlavettvanginn. Þá kom í ljós að við hæstv. ráðherra lítum þessa nýbreytni RÚV ekki alveg sömu augum, en ég lýsti yfir áhyggjum af samkeppnissjónarmiðum með hliðsjón af blómlegum samkeppnisrekstri annarra íslenskra hlaðvarpa sem eru ekki rekin fyrir skattfé almennings. En ég hef líka efasemdir um hvort hlaðvarpsgerð RÚV gæti talist vera í almannaþágu, samanber lög um Ríkisútvarpið. Í liðinni viku fjallaði Morgunblaðið um rekstur ríkismiðilsins á TikTok-rás en samkvæmt minnisblaði frá fundi stjórnar RÚV telja stjórnendur RÚV TikTok-rekstur samræmast lögbundnu hlutverki þess. Mér leikur hugur á að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til TikTok-vafsturs RÚV og hvort hún telji það vera hlutverk ríkisfjölmiðils.

Í öðru lagi fylgdumst við í beinni með þessu furðumáli á Ríkisútvarpinu varðandi fréttaskýringu Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur fréttamanns sem var látin fara úr fréttaskýringaþætti RÚV þegar hún vann að innslagi um meinta gjafagjörninga Reykjavíkurborgar til olíufélaga. Eftir nokkurt þref og mikinn þrýsting, sem skapaðist auðvitað við afhjúpun Maríu, var fréttaskýring hennar loks birt í öðrum þætti á RÚV. Umfjöllunin var sláandi og landsmenn eiga heimtingu á að fá að sjá hvernig staðið var að þessum samningum, talandi um lögbundið hlutverk.

En hér vildi ég gjarnan fá fram skoðun hæstv. ráðherra á þessu máli, ekki síst hvort hún telur að málið hafi skaðað trúverðugleika Ríkisútvarpsins.